Körfubolti

Viðar Örn: Geggjað fyrir okkur að vinna Kefla­vík

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viðar Örn Hafsteinsson gat leyft sér að fagna í kvöld.
Viðar Örn Hafsteinsson gat leyft sér að fagna í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður eftir 83-75 sigur á Keflavík á Egilsstöðum í kvöld. Frábær liðsheild Hattar, þar sem stigaskorið dreifðist mjög vel, lagði grunninn að sigrinum.

„Ég er hrikalega ánægður með að við höfum klárað þennan leik. Það er geggjað fyrir okkur að vinna Keflavík. Við erum í 4-2 sigurhlutfalli og það er eitthvað fyrir okkur að byggja ofan á.“

Höttur náði frumkvæðinu í öðrum leikhluta. Keflavík komst yfir í þriðja leikhluta og var tveimur stigum áður en fjórði leikhluti hófst. Höttur átti lokaáhlaupið.

„Við gerum vel í fyrri hálfleik, gerum áhlaup og komumst tíu stigum yfir. Kannski hefðum við getað náð 2-stiga forskotið í viðbót.

Við erum flatir, hægir og ekki nógu góðir í þriðja leikhluta. Eftir það komum við okkur í takt og komum til baka. Það er ekkert hik á okkur heldur förum við til að sækja sig. Það er þroskamerki á liðinu og sýnir sterka liðsheild.“

Nemanja Knezevic átti frábæran leik fyrir Hött, skoraði 14 stig og tók 18 fráköst. Það munaði mikið um þau. „Það er hægt að spreyja hann dökkan og aflita hárið, þá er hann Dennis Rodman íslensks körfubolta. Þegar hann ætlar sér það þá er hann framúrskarandi frákastari og þannig hefur hann verið í síðustu leikjum.“

Höttur hefur unnið fjóra af fyrstu sex leikjunum sem er árangur sem liðið hefur ekki áður náð á úrvalsdeildarferli sínum. „Við erum á þeirri vegferð að bæta okkur. Það þýðir að við þurfum að gera eitthvað sem við höfum ekki gert áður. Við erum með betri leikmannahóp og lið en fyrr. Síðan þurfum við að byggja áfram ofan á, við höfum góðan stuðning en við erum að bæta körfuboltamenninguna á Egilsstöðum. Við eigum enn langt í land, ef við náum því nokkurn tíma svo það er áfram gakk!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×