Lífið

Mjúk lending í karla­ríkinu á Kefla­víkur­flug­velli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Erla, Þórhildur og Guðrún Hrefna starfa allar hjá Icelandair við flugvirkjum. Þórhildur er enn sem komið er nemi.
Erla, Þórhildur og Guðrún Hrefna starfa allar hjá Icelandair við flugvirkjum. Þórhildur er enn sem komið er nemi.

Í áratugi var það þannig að karlar réðu lögum og lofum hér við viðhald flugvéla hjá Icelandair. Það er nú svosem þannig enn þá í dag en nú eru þeir að minnsta kosti ekki aleinir um hituna. Konur eru í auknum mæli að sækja inn á svið flugvirkjunar og nú er svo komið að aldrei hafa fleiri kvenkyns flugvirkjar verið starfandi hjá félaginu.

Kristín Ólafsdóttir hitti stelpurnar í flugskýlinu á Keflavíkurflugvelli og ræddi við þær um starfið og áskoranirnar sem fylgja því að koma inn í algjört karlaríki en fjallað var um hópinn í Íslandi í dag á þriðjudagskvöldið.

Þrír af sjö kvenkyns flugvirkjum Icelandair tóku á móti Kristínu í flugskýlinu. Erla er nýorðin fertug, búsett í Keflavík, Þórhildur er 28 ára úr Vesturbænum í Reykjavík, og Guðrún Hrefna er 34 ára, búsett í Grindavík ásamt manni sínum - sem er einnig flugvirki - og þremur börnum. Og þá liggur beinast við að spyrja - af hverju flugvirkjun?

Klippa: Þrjár konur sem flugvirkjar í karlaríki

„Þegar ég var í framhaldsskóla þá var ég svona pínu týnd og vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að gera við líf mitt og var að vinna hérna á varahlutalagernum á þeim tíma eða árið 2009. Pabbi kom til mín og segir, af hverju ferðu ekki bara að læra flugvirkjun, eiginlega í gríni en ég ákvað að slá til og sé ekki eftir því,“ segir Guðrún Hrefna Kolbeinsdóttir, flugvirki.

„Ég byrjaði hjá Icelandair árið 2011 og skipti nokkrum sinnum um deildir og lærði húsgagnasmíði á meðan. Svo endaði þetta með því að mig langaði meira að vinna með höndunum heldur en við skrifborðið,“ segir Erla Valþórsdóttir, flugvirki.

Engum finnst þetta skrýtið

„Pabbi var alltaf að segja við mig að finna einhverja vinnu með höndunum en ég veit svosem ekki alveg hvernig ég endaði hérna. Ég þekkti einhvern sem var búinn að fara í gegnum þennan skóla og endaði einhvern veginn hér og er búin að vera hér síðan 2020,“ segir Þórhildur Eyþórsdóttir, nemi í flugvirkjun.

Þórhildur lagði stund á förðunarfræði áður en stefnan var tekin á flugvirkjann. Hún er eins og áður segir úr Vesturbænum - og segir að bóklegt nám sé vissulega leiðin sem ungir Vesturbæingar feta oftast, ekki síst stelpurnar.

„Alltaf þegar Tækniskólinn kom með kynningar í skólann þá voru fáir að pæla í því og flestir fara í viðskiptafræði, lögfræði eða Listaháskólann en það finnst engum þetta sérstaklega skrýtið hjá mér, þetta er bara menntun,“ segir Þórhildur. Kristín spurði þær hvort þær hefðu einhver tímann lent í fordómum eða leiðindum á vinnustaðnum.

„Ég myndi ekki segja að maður hafi lent í fordómum en þegar konur koma inn á vinnustað þar sem það eru aðallega karlar þá er öðruvísi talsmáti og öðruvísi hegðun og báðir hóparnir þurfa kannski að aðlagast hvor öðrum. En ekki fordómar myndi ég segja. Þetta var bara mjúk lending hérna inni, miðað við það sem var búið að vara manni við,“ segir Þórhildur.

Hér að neðan má sjá brot úr innslaginu en áskrifendur geta séð það í heild sinni á frelsiskerfi Stöðvar 2 og á Stöð 2+.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×