Sport

Utan vallar: Gleyma ekki sínum grindvíska bróður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Körfuboltalið Grindavíkur ætla að halda sínu striki þrátt fyrir allt.
Körfuboltalið Grindavíkur ætla að halda sínu striki þrátt fyrir allt. vísir/hulda margrét

Aðdáundarvert hefur verið að fylgjast með því hversu þétt íþróttahreyfingin hefur staðið við bakið á Grindvíkingum vegna ástandsins þar í bæ.

Á fimmtudaginn í síðustu viku vann Grindavík sinn þriðja leik í röð í Subway deild karla þegar liðið lagði Þór frá Þorlákshöfn að velli, 93-90. Daginn eftir var Grindavíkurbær rýmdur vegna jarðhræringa á svæðinu.

Það er kannski kaldhæðni örlaganna að nýtt íþróttahús Grindavíkur, sem bæjarbúar biðu svo lengi eftir, sitji beint ofan á sprungunni sem gengur í gegnum bæinn. Óvíst er hversu miklar skemmdirnar eru en ljóst er að þær eru verulegar.

Hljóðið var því skiljanlega nokkuð þungt í formanni körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, Ingibergi Þ. Jónassyni, þegar hann mætti í viðtal í kvöldfréttir Stöðvar 2 í vikunni.

„Okkur langar bara að halda sjó. Við erum með nokkra viðburði, fótboltaleiki á sumrin, nokkrar íþróttagreinar, körfuna á veturna, þorrablót og sjómannadaginn. Þetta er eitthvað sem bindur bæinn saman. Við í stjórn körfunnar erum bara að hugsa um bæinn okkar og heildina,“ sagði Ingibergur.

„Við erum ekki að hugsa um að vinna alla leiki. Okkur langar bara að halda áfram og halda sjó og reyna að gera eitthvað fyrir bæinn okkar.“

Hugur þjóðarinnar hefur verið hjá Grindvíkingum undanfarna daga og margir boðið fram aðstoð sína. Íþróttahreyfingin hefur ekki látið sitt eftir liggja og hefur verið sérstaklega dugleg við að rétta Grindvíkingum hjálparhönd. 

Hvert félagið á fætur öðru hefur boðið grindvískum íþróttakrökkum að æfa hjá sér, þeim að kostnaðarlausu. Gríðarleg röskun hefur orðið á lífi Grindvíkinga en þeir eiga allavega möguleika á að stunda sína íþrótt áfram þótt það sé á öðrum stað.

Þá hafa meistaraflokkar Grindavíkur í körfubolta fengið inni í Seljaskóla og æft þar. Og leikmenn liðanna báru sig nokkuð vel á fyrstu æfingunum þar fyrr í vikunni.

Breiðablik hefur boðist til að hýsa heimaleiki Grindavíkur í Smáranum og á morgun verður þar sannkölluð grindvísk körfuboltaveisla. Kvennalið Grindavíkur mætir Þór Ak. og karlaliðið Hamri.

„Það væri ofboðslega fallegt, og held ég gott fyrir alla sem treysta sér og vilja, að taka næstkomandi laugardag frà, koma saman með okkur þar sem við ætlum að reyna að gleyma stund og stað. Losa um tilfinningar og spennu sem við erum öll búin að vera að glíma við á jákvæðan hátt með því að hvetja liðin okkar,“ segir meðal annars í yfirlýsingu frá stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Íþróttum er oft líkt við trúarbrögð. Grindvíkingar hafa komið saman í guðshúsum til að hlúa að hvort öðru á þessum erfiðu tímum og á morgun koma þeir saman í Smáranum, sækja styrk í hvort annað, njóta samverunnar og sjá vonandi góðan körfubolta.

Íþróttirnar eru kannski ansi smáar í stóra samhenginu á tímum sem þessum en þær eru sannarlega sameiningartákn. Og samtakamátturinn í íslensku íþróttahreyfingunni, þegar hún tekur sig til, getur verið ansi sterkur eins og síðustu dagar hafa sýnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×