Bröndby vann mikilvægan sigur á Köge í vikunni og lyfti sér þar með upp í efsta sætið. Kristín Dís Árnadóttir var þá á meðal markaskorara og hún var að sjálfsögðu í byrjunarliði Bröndby í dag.
Joy Omewa kom heimakonum í Fortuna Hjörring yfir í upphafi leiks en Julie Tavlo-Petersson jafnaði metin fyrir Bröndby. Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks kom Renee Guion Fortuna Hjörring yfir á nýjan leik og staðan 2-1 þegar flautað var til leikhlés.
Í síðari hálfleiknum reyndu leikmenn Bröndby hvað þær gátu til að jafna metin. Það tókst ekki og 2-1 sigur heimakvenna því staðreynd.
Bröndby fellur niður í 2. sæti deildarinnar eftir tapið en Nordsjælland er í efsta sætinu. Þar er Emilía Kiær Ásgeirsdóttir búin að vera í miklu stuði en hún skoraði eitt mark í sigri liðsins gegn Aab í gær. Emilía er markahæst í dönsku deildinni með átta mörk.