Erlent

Dauðs­fall konu í rassastækkun orðið milli­ríkja­mál

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kerr var aðeins 31 árs þegar hún lést í aðgerðinni í Tyrklandi.
Kerr var aðeins 31 árs þegar hún lést í aðgerðinni í Tyrklandi. Melissa Kerr

Embættismenn frá Bretlandseyjum munu funda með kollegum sínum í Tyrklandi eftir að bresk kona lést þegar hún gekkst undir rassastækkun á einkaspítala í Istanbúl.

Melissa Kerr, 31 árs, ferðaðist til Tyrklands árið 2019 til að undirgangast það sem oft er kallað „Brazilian Butt Lift“, eða BBL, árið 2019. Hún lést þegar hennar eigin fitu var sprautað í æð í annarri rasskinninni.

Rannsókn á Bretlandseyjum leiddi í ljós að Kerr hefði látist þegar fitan stíflaði lungnaæð. 

BBL, sem er framkvæmd til að lyfta og stækka rassinn, er meðal áhættusömustu lýtaaðgerða sem framkvæmdar eru en það þótti sannað að Kerr hefði ekki verið upplýst um áhættuna né dánartíðni aðgerðanna.

Dánardómstjórinn Jacqueline Lake ritaði Mariu Caulfield, heilbrigðisráðherra Bretlands, erindi í kjölfar þess að niðurstöðurnar lágu fyrir og lýsti áhyggjum af ásókn Breta í aðgerðir erlendis.

Í svörum Caulfield sagði ráðherrann að til stæði að funda með ráðamönnum í Tyrklandi um málið og ræða meðal annars það regluverk sem þar væri í gildi og hvernig ríkin gætu unnið saman að því að takmarka áhættu sjúklinga í framtíðinni.

Ráðherrann sagði yfirvöld meðvituð um að reglur erlendra ríkja væru oft ekki á pari við reglur á Bretlandseyjum. Mikilvægt væri að vinna að samræmingu þeirra. Sagði hún þetta ekki síst eiga við um BBL, þar sem dánartíðnin væri allt að tíu sinnum hærri en við aðrar aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×