Skoðun

Vöndum okkur

Harpa Júlíusdóttir skrifar

Við erum líklega flest meðvituð um það að ofneysla veitir okkur ekki hamingju, og að í raun gengur hún á möguleika okkar og annarra til að vera hamingjusöm. Við eyðum fjármagni í vörur sem koma okkur ekki að neinu gagni, veita okkur enga hamingju og enda jafnvel beint í ruslinu - við kaupum til að henda. Framleiðsla vörunnar hefur þá í ferlinu gengið á auðlindir jarðar og í ótal tilfella einnig gengið á mannréttindi íbúa í hinu hnattræna suðri. Þessi neikvæðu tengsl neyslu og hamingju hafa sífellt komið betur í ljós í rannsóknum undanfarin ár.

Við vitum að til þess að koma í veg fyrir ofnýtingu auðlinda jarðar og standa við loftslagsmarkmið þurfum við að færast úr línulegu hagkerfi yfir í hringrásarhagkerfi. Fyrsta þrepið í módeli hringrásar er að draga úr neyslu og þar stöndum við á Vesturlöndum frammi fyrir alvöru áskorun. Síðustu ár höfum við fengið auka vinkil á þá áskorun, bæði framleiðndur, seljendur og neytendur, – þá ofneyslu áskorun sem blasir við okkur á hinum svokallaða Svarta föstudegi. Þar höfum við náð að skapa stemningu sem þrýstir á ofneyslu og óábyrga viðskiptahætti sem enginn græðir á. Hér þurfum við að breyta um átt, hugsa til framtíðar, hugsa til hringrásar.

Fyrirmynd í fiski

Um allan heim er litið til þess árangurs em við höfum náð þegar kemur að því að nýta auðlindina sem liggur í hafinu okkar við strendur Íslands. 100% fish er verkefni og markmið sem litið er upp til um allan heim og hefur Sjárvarklasinn lagt ómælda vinnu og hugvit í að tryggja þennan magnaða árangur. Í gegnum nýsköpun, samstarf og stór skref hefur okkur hér á landi tekist að ná allt að 90% nýtingu úr hverjum veiddum fiski. Auðlindir sem áður fóru í urðun eða var hreinlega hent aftur í sjóinn eru nú nýttar í ótal verðmætar hliðarafurðir og útflutningsvörur. Hérna er um að ræða fyrirmyndarverkefni sem hægt væri að heimfæra yfir á annan iðnað með sama tilgang að leiðarljósi.

Tækifæri til að skapa

Yfirfærsla okkar í hringrásarhagkerfið er ákall um nýsköpun og skapandi hugsun, bæði í framleiðslu og neyslu. Við hugsum þetta einfaldlega upp á nýtt og þar hafa aðildarfélög okkar í Festu verið í fararbroddi. Við setjum fiskúrgang í orkudrykki (Collab frá Ölgerðinni og Feel Iceland), framleiðum búðarkerrur úr plasti sem safnað er úr sjónum (Krónan), bjóðum ferðamönnum að synda í affalls vatni frá hitaveitu (Bláa lónið), seljum ónýta loftpúða úr bílum til verðlaunaðra hönnuða (Netpartar), keyrum framleiðsluferli með metan gasi sem kemur fram okkar eigin niðurbrjótanlegu vöruumbúðum (Te og kaffi), læknum þúsundir manna með fiskiroði sem áður fór í ruslið (Kerecis) og við drögum markvisst úr vöruúrvali á sama tíma og við aukum notagildi á þeim vörum sem við framleiðum (66° Norður).

Það liggja einnig gífurleg tækifæri í endursölu og endurnotkun. Hugarfarsbreyting í kringum það að koma notuðum hlutum aftur inn í hringrás með því að gefa þá í gjafir, til dæmis nú um jólin, hefði í för með sér ótal tækifæri til að minnka sóun og jafnvel draga úr verðbólgu. Endursölumarkaður á fatnaði hefur á síðustu árum vaxið á ógnarhraða og mun það viðskiptamódel nú þjóna sem fyrirmynd fyrir aðra vöruflokka. Á árinu 2022 var virði á endursölu fatamarkaði í heiminum metið á 177 milljarða bandaríkjadala og er því spáð að árið 2027 verði það komið í 351 milljarða bandaríkjadala. Það liggja því tækifæri í því að framleiða vandaða vöru sem á líf eftir notkun fyrsta kaupanda. Þá hefur verið sýnt fram á það að74% af neytendumí heiminum nýti sér að einhverju leiti endursölumarkaði og þá einna helst þegar kemur að fatnaði og raftækjum. Vörumerki semhanna sínar vörur í þeim tilgangi að þær eigi sér annað líf inná endursölumarkaði, eru á sama tíma að byggja upp aukna langtíma tryggð við sína viðskiptavini.

Við þurfum ekki að líta langt til að rifja upp dæmi um endursölumarkaði sem eiga góðan stað í hjörtum landsmanna og hafa skilað sínu. Góði hirðirinn er þar í fararbroddi, þar sem gömul húsgögn og aðrir heimilismunir fá nýtt líf. Fatabúðir Rauða krossins eru annað nærtækt dæmi.

Vöndum okkur

Ein af grunnstoðum hringrásarhagkerfsins er að framleiða eingöngu vörur sem skapa raunverulegt virði í sjálfbæru samfélagi. Við þurfum að hætta að framleiða vörur sem hafa ratað inn í hagkerfið okkar vegna ofneyslu.

Þetta þýðir ekki að við hættum að framleiða vörur, segjum upp starfsfólki og lokum fyrirtækjum, alls ekki. Í hringrásarhagkerfinu er vandað til verks bæði í framleiðslu, þjónustu og neyslu. Samband framleiðanda og neytanda er vandað og traust. Samband okkar sem samfélags við náttúruna er vandað og auðgandi. Við vöndum okkur.

Höfundur er verkefnastjóri hjá Festu - miðstöðvar um sjálfbærni. 




Skoðun

Sjá meira


×