Erlent

Hélt fyrst að bíllinn væri flug­vél

Samúel Karl Ólason skrifar
Bíllinn tókst á loft en ekki liggur fyrir hvort ökumaður bílsins olli slysinu viljandi eða ekki.
Bíllinn tókst á loft en ekki liggur fyrir hvort ökumaður bílsins olli slysinu viljandi eða ekki. AP

Sprenging varð á landamærum Bandaríkjanna og Kanada við Niagarafossa í gærkvöldi. Það gerðist þegar bíll sem ekið var á miklum hraða að landamærunum, Bandaríkjamegin, tókst á loft og sprakk. Hjón létu lífið og einn landamæravörður slasaðist en enn liggur ekki fyrir af hverju bílnum var ekið á svo miklum hraða.

Enn er mikið sem liggur ekki fyrir um atvikið en löggæsluembætti í Bandaríkjunum segja ekkert benda til þess að um hryðjuverk eða tilraun til hryðjuverks hafi verið að ræða, eins og fyrst var talið mögulegt. Engin sprengiefni fundust á vettvangi, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Atvikið var fangað með öryggismyndavélum við landamærin og sýnir það hvernig bíllinn fer tugi metra í lofti. Vitni sagði blaðamanni AP að hann hefði heyrt lætin, snúið sér við og talið sig í fyrstu horfa á flugvél.

Bíllinn er sagður hafa farið yfir 2,4 metra háa girðingu.

Í frétt CNN segir að hjón frá New York hafi verið í bílnum og þau hafi verið á leið heim frá spilavíti eftir að tónleikum með Kiss, sem halda átti Kanadamegin við landamærin og hjónin ætluðu á var frestað.

Kathy Hochul, ríkisstjóri New York-ríkis, segir bílinn hafa verið á gífurlegum hraða þegar hann lenti á tálma. Óljóst sé hvort bílnum hafi verið ekið viljandi á þennan tálma eða ekki.

Hochul sagði myndefni af slysinu vera fjarstæðukennt.

Bíllinn tókst á loft og sveif langa vegalengd áður en hann lenti á landamærabás, þar sem sprenging varð og kviknaði í bílnum. Hjónin létu lífið en landamæravörðurinn sem starfaði í básnum er sagður hafa slasast lítillega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×