Frá þessu segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að í dag blási vindur úr suðri, ýmist gola eða kaldi og þurrt veður. Á vestanverðu landinu megi hins vegar búast við stinningskalda og dálítilli rigningu eða slyddu þegar líður á daginn.
„Sunnanáttin færir okkur mildari loftmassa og hitatölurnar þokast uppávið.
Á morgun er útlit fyrir fremur hæga sunnanátt. Skýjað á landinu og þurrt að mestu, en sums staðar smá væta vestantil. Hiti 2 til 7 stig.
Áfram hæglætisveður á sunnudag og víða þurrt. Það stefnir því í rólega helgi í veðrinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Sunnan 3-8 m/s. Skýjað á landinu og sums staðar smá væta vestantil. Hiti 2 til 7 stig.
Á sunnudag: Hæg suðlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost inn til landsins.
Á mánudag: Sunnan 8-13 m/s og fer að rigna, en þurrt norðaustan- og austanlands. Hiti 1 til 7 stig.
Á þriðjudag: Suðvestlæg átt og stöku él á vestanverðu landinu. Annars rigning, slydda eða snjókoma fram eftir degi, einkum suðaustanlands. Kólnandi veður.
Á miðvikudag: Norðlæg eða breytileg átt og stöku él, en bætir í vind og úrkomu norðan- og austanlands seinnipartinn. Frost 0 til 7 stig.
Á fimmtudag: Ákveðin norðanátt og él, en bjartviðri sunnan heiða. Vægt frost.