Handbolti

Tap hjá Ís­landi í lokaleik fyrir HM

Siggeir Ævarsson skrifar
Valsarinn Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Íslands í dag
Valsarinn Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í liði Íslands í dag Vísir/Anton Brink

Ísland mætti Angóla í dag í lokaleik sínum á Posten Cup mótinu sem haldið er í Noregi. Liðin eru saman í D-riðli á heimsmeistaramótinu og mætast þar einnig í lokaleik riðilsins.

Thea Imani Sturludóttir kom Íslandi 1-0 yfir með þrumuskoti í upphafi leiks en eftir það var Ísland að elta allan tímann. Munurinn fór mest upp í sex mörk í stöðunni 20-26 en íslenska liðið kom til baka og lagaði stöðuna í 24-27 áður en yfir lauk.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst Íslendinga með fimm mörk, þar af eitt úr víti. Sandra Erlingsdóttir kom næst með fjögur og þrjú þeirra úr vítum.

Íslenska liðið hefur nú lokið æfingaleikjum sínum fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ísland mætir Slóveníu í fyrsta leik næstkomandi fimmtudag, þann 30. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×