Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu um verkefnið en fáist rannsóknarleyfið með forgang að nýtingu er fyrirhugað að skrifa undir viljayfirlýsingu um nýtingu jarðhitaauðlindarinnar til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni með ábyrgum hætti og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Einnig er lögð áhersla á að afurðir frá virkjuninni verði nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.
„Það skiptir öllu máli að allir aðilar vinni saman til þess að flýta orkuskiptum og tryggja orkuöryggi á svæðinu og landinu öllu. Ég fagna því að sveitarfélagið Ölfus og Orkuveitan nái saman um að halda áfram með þessi mikilvægu verkefni í góðu samkomulagi við hlutaðeigandi aðila,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fundinum.
Vilja skapa verðmæti
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, segir sveitarfélagið hafa um nokkurt skeið unnið að því að auka velferð á grundvelli umhverfisvænnar verðmætasköpunar.
„Ef við viljum verðmætasköpun á borð við það sem við erum nú að vinna að þá þarf að sækja orkuna og það ætlum við að gera á forsendum þeirra umhverfissjónarmiða sem við viljum standa fyrir í samstarfi við okkar góðu samstarfsaðila í Orkuveitu Reykjavíkur,“ sagði Elliði
Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir að öll áhersla verði lögð á fullnýtingu jarðhitaauðlindarinnar þar sem afurðir frá virkjuninni verða meðal annars nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.