Verðbólga síðustu tólf mánuðina mælist nú átta prósent og hefur aukist um 0,1 prósentustig frá síðasta mánuði. Segja má að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi leikið ákveðinn biðleik þegar hún ákvað að halda meginvöxtum óbreyttum í 9,25 prósentum og horfi ekki hvað síst til yfirstandandi kjaraviðræðna. Stefnt hefur verið að því að ljúka samningum áður en núgildandi skammtímasamningar renna út eftir tíu vikur, hinn 31. janúar.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir þetta ekki geta gengið upp.
„Samningar þurfa hreinlega að renna út og friðarskyldan sömuleiðis. Vegna þess að stjórnvöld virðast vera að fara í þveröfuga átt bæði varðandi húsnæðismálin og sveitarfélögin eru að tilkynna gjaldskrárhækkanir á bilinu fimm upp í þrjátíu prósent, erum við að sjá. Þannig að við höfum í sjálfu sér núna tekið ákvörðun um að setja allar viðræður á bið,“ segir Ragnar Þór.
Verkalýðshreyfingin muni skoða málin aftur upp úr áramótum þegar komið verði endanlega í ljós hversu miklar gjaldskrárhækkanir hins opinbera verði á næsta ári. Þetta væri samdóma álit stóru landsambandanna á almennum vinnumarkaði
„Við erum í þessu saman og ég reikna fastlega með því að frekari fundarhöldum eða viðræðum við bæði stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins verði hætt fram yfir áramót. Ég á frekar von á að það verði lendingin frekar en að spýta í lófana,“ segir formaður VR.
Þetta þýðir með öðrum orðum að yfirstandandi kjaraviðræður eru í algjöru uppnámi. Ragnar Þór segir að sveitarfélögin væru nú að ræða sínar fjárhagsáætlanir fyrr næsta ár með áformum um stórfelldar hækkanir á gjöldum. Nú væri útlit fyrir að lokaatlaga verði ekki gerð að kjarasamningum fyrr en friðarskylda núgildandi samninga væri að renna út í lok janúar.
„Þetta er bara grafalvarleg staða. Við erum að fara afturábak. Stjórnvöld varðandi húsnæðismálin, varðandi gjaldskrárhækkanir. Við erum að sjá vísitöluna hækka og hækka verðlag. Það er alls staðar þrýstingur upp á við. Það er allt sem talar einhver veginn gegn því að hér náist einhver góð niðurstaða í kjaraviðræðum. Þannig að við getum ekki annað en beðið. Við getum ekki verið að gera atlögu að einhverju, ein í einhverjum báti út á ballarhafi þegar enginn ætlar að taka þátt,” segir Ragnar Þór Ingólfsson.