Fótbolti

Þýsk goðsgögn vill lækka Nagelsmann í tign

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Nagelsmann hefur ekki byrjað vel sem þjálfari þýska landsliðsins.
Julian Nagelsmann hefur ekki byrjað vel sem þjálfari þýska landsliðsins. Getty/Alexander Hassenstein

Þýska fótboltalandsliðið er ekki að spila vel og ekki að byrja vel undir stjórn Julian Nagelsmann. Berti Vogts er með lausnina og er hún heldur róttæk. Hann segir að þjálfarinn ætti að vera aðstoðarþjálfari liðsins á komandi Evrópumóti.

Vogts vann ekki aðeins titla með þýska landsliðinu sem leikmaður heldur gerði hann þýska landsliðið að Evrópumeisturum á EM í Englandi árið 1996. Hann hefur því sterka rödd.

Nagelsmann tók við þýska landsliðinu í september eftir að Hansi Flick var látinn taka pokann sinn.

Hinn 36 ára gamli Nagelsmann náði ekki að kveikja í liðinu sem hefur aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjunum undir hans stjórn. Tveir síðustu leikir hafa tapast.

Áður en Nagelsmann tók við liðinu þá stýrði Rudi Völler þýska landsliðinu til 2-1 sigurs á Frökkum. Vogts vill leita til hans.

„Rudi Völler á að vera landsliðsþjálfari og Julian Nagelsmann ætti að vera aðstoðarmaður hans. Að mínu mati þá er það rétta leiðin ef við ætlum að ná árangri á Evrópumótinu,“ sagði Berti Vogts við Bild.

Það er auðvitað mikið undir fyrir Þjóðverja næsta sumar enda fer Evrópukeppnin fram á þeirra heimavelli.

„Besta frammistaða liðsins í mörg ár kom undir stjórn Rudi á móti Frökkum. Hann hefur mikla þekkingu og miklu meiri reynslu en Nagelsmann,“ sagði Vogts.

Völler var landsliðsþjálfari Þýskalands frá 2000 til 2004. Hann kom liðinu í úrslitaleik á HM 2002 en hætti eftir að liðið komst ekki upp úr riðlinum í úrslitakeppni EM 2004.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×