Handbolti

HM í hand­bolta: Senegal sótti ó­vænt stig og Brasilía tryggði sig á­fram

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Soukeina Sagna fagnar stiginu sem Senegal sótti
Soukeina Sagna fagnar stiginu sem Senegal sótti Björn Larsson Rosvall / epa-efe

Fjórir leikir fóru fram nú síðdegis á Heimsmeistaramótinu í handbolta. Senegal sótti óvænt úrslit gegn Króatíu, Grænland mátti lúta í lægra haldi gegn gríðarsterku liði Suður-Kóreu, Rúmenía og Brasilía fóru svo létt með sína leiki. 

Senegal er meðal þátttökuþjóða í annað sinn, þær tóku þátt á HM 2019 í Japan, misstu af HM 2021 á Spáni og voru meðal síðustu þjóða að tryggja sér sæti á mótið í ár. 

Þær mættu Króötum sem hafa verið á mikilli uppsveiflu síðastliðin og enduðu til dæmis í 3. sæti á EM 2020 og komust á HM 2021 í fyrsta sinn í tíu ár. 

Senegalirnir leiddu óvænt með tveimur mörkum í hálfleik og enduðu á því að gera 22-22 jafntefli. 

Grænland hefur einnig notið aukinnar velgengi upp á síðkastið og voru mættar í annað sinn á HM, síðast tóku þær þátt árið 2021. Þær eru ríkjandi N-Ameríku meistarar og kepptu við ríkjandi Asíumeistara, Suður-Kóreu. 

Þær grænlensku áttu því miður ekki roð í þær kóresku. Þegar fyrri hálfleik lauk var staðan 15-6, betur gekk í seinni hálfleiknum en niðurstaðan varð engu að síður ellefu marka tap. 

Rúmenía lagði svo Síle að velli með 25 mörkum. Þetta var í annað sinn sem landsliðin mætast í handbolta. Síðast vann Rúmeníu 51-17 í riðlakeppni HM 2009. 

Í G riðli hófst svo önnur umferð með 46-15 sigri Brasilíu á Kasakhstan, þær brasilísku unnu fyrsta leik sinn gegn Úrúgvæ á fimmtudag og eru búnar að tryggja sig áfram upp úr riðlinum. 

Króatía - Senegal 22-22

S-Kórea - Grænland 27-16

Rúmenía - Síle 44-19

Kasakhstan - Brasilía 15-46

Næsti leikur Íslands á mótinu verður á morgun klukkan 17:00 gegn ríkjandi Ólympíumeisturum Frakklands. 

Vísir fylgir stelpunum okkar vel eftir fram að leik og færir allar helstu fregnir frá Stafangri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×