Handbolti

HM í hand­bolta: Gestgjafaþjóðirnar fögnuðu allar sigri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þórir Hergeirsson stýrði Noregi til sigurs gegn Austurríki og tryggði þeim sæti í úrslitakeppninni.
Þórir Hergeirsson stýrði Noregi til sigurs gegn Austurríki og tryggði þeim sæti í úrslitakeppninni. Vísir/EPA

Allar þrjár gestgjafaþjóðir Heimsmeistaramótsins í handbolta stigu samtímis á gólf í kvöld og Spáni tókst að tryggja sig áfram upp úr riðlinum. 

HM í handbolta fer fram í Noregi, Svíþjóð og Danmörku þessa dagana. 

Þórir Hergeirsson stýrði norska liðinu til sigurs gegn Grænlandi í opnunarleik mótsins og aftur gegn Austurríki í kvöld sem tryggði þeim sæti í úrslitakepninni. 

Noregur tryggði sér með þessum sigri sæti í úrslitakeppninni en næst leika þær úrslitaleik við S-Kóreu um efsta sætið. Þær eru að sjálfsögðu ríkjandi Evrópu- og Heimsmeistarar og ætla sér alla leið á mótinu. 

Svíþjóð fór svo létt með Kína á heimavelli sínum í Gautaborg. Þetta var fyrsti leikur beggja liða á mótinu en með þeim í riðli eru Senegal og Króatía, sem gerðu jafntefli sín á milli fyrr í dag. Svíarnir voru mun líklegri til sigurs þegar spáð var í spilin fyrir leik, spáin raungerðist svo en þær sænsku áttu aldrei í vandræðum með þær kínversku. 

Kína er mætt til leiks á átjánda Heimsmeistaramótið sitt í röð, en hefur aldrei komist áfram í úrslitakeppninna. 

Danmörk lék sömuleiðis sinn fyrsta leik á mótinu þegar þær tóku á móti Serbíu. Þær dönsku þykja sigurstranglegar á mótinu og sönnuðu það með góðri frammistöðu gegn ungu og feykisterku liði Serba. 

Spáni tókst svo að tryggja sig áfram í úrslitakeppni mótsins með öruggum sigri gegn Úkraínu. Þær byrjuðu mótið á afturfótunum og lentu í miklum vandræðum með Kasakhstan í fyrsta leiknum en sýndu snilli sína í kvöld. Þær leika næst hreinan úrslitaleik gegn Brasilíu um sigur í G-riðli. 

Úrslit kvöldsins á HM í handbolta: 

Svíþjóð - Kína 36-24

Austurríki - Noregur 28-45

Danmörk - Serbía 25-21

Spánn - Úkraína 32-20

Næsti leikur Íslands á mótinu verður á morgun klukkan 17:00 gegn ríkjandi Ólympíumeisturum Frakklands.

Vísir fylgir stelpunum okkar vel eftir fram að leik og færir allar helstu fregnir frá Stafangri.


Tengdar fréttir

Afmælisbarnið þurfti að slökkva á símanum

Óhætt er að segja að Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markvörður Íslands, hafi átt eftirminnilegan afmælisdag í gær er hún þreytti frumraun sína á heimsmeistaramóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×