Handbolti

„Maður tekur út úr reynslu­bankanum seinna meir“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Díana Dögg í baráttunni í leiknum gegn Frökkum.
Díana Dögg í baráttunni í leiknum gegn Frökkum. Vísir/EPA

Díana Dögg Magnúsdóttir var gríðarlega svekkt eftir jafntefli Íslands og Angóla í dag en Ísland var grátlega nálægt því að fara í milliriðil heimsmeistaramótsins. 

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Við getum ekki verið nær þessu og það er glötuð tilfinning að fá jafnteflið en ná ekki að klára þetta og fara áfram á markatölu. Það er eiginlega bara hræðilegt,“ sagði Díana Dögg í viðtali við Val Pál Eiríksson íþróttafréttamann strax eftir leik.

Díana Dögg átti fína innkomu í leiknum í dag og skoraði tvö mörk auk þess að taka vel á því í vörninni. Hún átti erfitt með að setja fingur á hvað hefði farið úrskeiðis.

„Ég veit það ekki. Kannski verðum við aðeins of flatar og þær fá þessi einföldu mörk og geta skotið yfir okkur. Mér fannst við þokkalega flottar í dag og náðum góðum leik. Við misstum þær ekki strax frá okkur á fyrstu mínútum. Við misstum þær aðeins í burtu í byrjun seinni hálfleiks en náum að vinna okkur til baka. Við hefðum þurft að klára þetta aðeins fyrr.“

Klippa: Díana Dögg viðtal eftir leik gegn Angóla

Hún átti ekki erfitt með að lýsa tilfinningum sínum eftir leik en sagði vissulega hægt að taka eitthvað gott úr mótinu þó erfitt væri að sjá það akkúrat núna.

„Maður er drullufúll, pirraður og svekktur. Að enda þetta í jafntefli, það er ömurlegt verð ég að segja. Er ekki sama klisjan að þetta fer allt í reynslubankann? Það er drulluleiðinlegt að segja það. Maður tekur út úr reynslubankanum seinna meir.“

Ísland fer núna í Forsetabikarinn en þar mætast þau lið sem enduðu riðlakeppnina í neðstu sætum riðlanna.

„Við förum bara í alla leiki þar til að vinna og það skiptir engu máli við hverja við erum að spila. Fyrst þetta fór svona í dag þá þurfum við bara að ná fullum fókus á því,“ sagði Díana Dögg að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×