Í B-riðli vann Svartfjallaland sex marka sigur á Ungverjalandi, lokatölur 24-18. Dijana Mugosa var markahæst í sigurliðinu með átta mörk, þar á eftir kom Tatjana Brnovic með sjö mörk.
Það er því Svartfjallaland sem fer áfram í milliriðil með fjögur stig á meðan Ungverjaland fer áfram með tvö stig. Kamerún komst einnig í milliriðil en fer þangað stigalaust.
Í D-riðli vann Frakkland eins og áður sagði sigur á Slóveníu, lokatölur 31-27. Tryggðu Frakkar sér þar með sigur í riðlinum.
Léna Grandveau var markahæst hjá Frakklandi með sex mörk. Chloé Valentini kom þar á eftir með fimm mörk. Frakkland fer því í milliriðil með fjögur stig, Slóvenía tvö stig og Angóla stigalaust.
Í F-riðli vann Þýskaland einstaklega öruggan sigur á Póllandi, lokatölur 33-17. Alina Grijseels var markahæst hjá Þýskalandi með sjö mörk úr jafn mörgum skotum. Xenia Smits og Antje Döll skoruðu fimm mörk hvor.
Þær þýsku sigla inn í milliriðil með fjögur stig í farteskinu. Pólverjar taka tvö með sér og þá komst Japan áfram en verða án stiga í milliriðlinum.
Í H-riðli vann Holland þægilegan 13 marka sigur á Tékklandi, lokatölur 33-20. Bo Van Wetering var markahæst hjá Hollandi með sjö mörk úr jafn mörgum skotum. Þær Laura Van Der Heijden og Nikita Van Der Vliet komu þar á eftir með fimm mörk hvor.
Holland rúllaði riðlinum upp og fer með fjögur stig í milliriðil, Tékkland tekur tvö með sér en Argentína fer án stiga í milliriðil.
Á morgun, þriðjudag, lýkur riðlakeppninni og þá verður ljóst hvernig milliriðlarnir líta út.