Handbolti

Elín Jóna með flest varin víti á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar einu af sex vörðum vítaskotum sínum á mótinu.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar einu af sex vörðum vítaskotum sínum á mótinu. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir hefur varið flest víti allra markvarða á heimsmeistaramótinu í handbolta til þessa.

Ísland hefur spilað alla leiki sína í riðlakeppninni en lokaleikir nokkurra liða í riðlakeppninni fara fram í kvöld.

Elín Jóna hefur alls varið sex víti í leikjunum þremur eða tvö skot að meðaltali í leik.

Hún hefur varið öll þessi víti í tveimur síðustu leikjum, fjögur á móti Frakklandi og tvö á móti Angóla.

Alls hefur Elín reynt við fjórtán víti er státar því af 43 prósent markvörslu í vítaköstum á HM sem er frábær frammistaða. Í síðustu tveimur leikjum hefur okkar kona varið sex af tíu vítum sem hún hefur reynt við.

Næst á eftir Elínu í vörðum víti er pólski markvörðurinn Adrianna Placzel sem hefur varið fimm víti. Enginn annar markvörður hefur varið fleiri en þrjú víti.

Elín er ekki bara að verja víti því aðeins einn markvörður á mótinu hefur varið fleiri skot en hún. Svartfellingurinn Marta Batinovic hefur varið 37 skot á móti 28 vörðum skotum hjá Elínu. Nokkrir markverðir hafa varið fleiri skot að meðaltali í leik og eiga eftir lokaleik sinn í riðlinum.

Elín nær vonandi að bæta við mörgum vörðum skotum í Forsetabikarnum sem hefst á fimmtudaginn með leik á móti Grænlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×