Viðskipti innlent

Árni tekur stoltur við sem for­stjóri Marel

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árni Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri Marel.
Árni Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri Marel. Marel

Árni Sigurðsson hefur verið ráðinn forstjóri Marel. Hann hefur gengt starfinu tímabundið undanfarnar vikur eftir að Árni Oddur Þórðarson lauk störfum hjá fyrirtækinu.

Marel tilkynnti um ráðningu Árna Sigurðssonar í tilkynningu til Kauphallar síðdegis. Hann tekur við störfum þegar í stað.

Árni tók við starfi aðstoðarforstjóra og yfirmanns tekjusviða í nóvember 2022, og þann 7. nóvember á þessu ári tók Árni tímabundið við sem forstjóri félagsins. Árni hefur starfað hjá Marel frá árinu 2014, fyrst sem yfirmaður stefnumótunar og þróunar, og síðar framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga. 

Áður starfaði Árni fyrir AGC Partners í London og hjá fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Árni er með MBA gráðu frá Harvard Business School og BSc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er stjórn Marel ánægjuefni að tilkynna um ráðningu Árna Sigurðssonar sem forstjóra Marel, að undangengnu ráðningarferli sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Ég hef starfað náið með Árna síðustu ár og fylgst með honum vaxa sem stjórnanda og leiðtoga innan samstæðu Marel, nú síðast í starfi tímabundins forstjóra sem hann hefur leyst farsællega. Við í stjórn Marel erum sammála um að yfirgripsmikil þekking Árna á starfsemi félagsins og alþjóðleg reynsla séu lykilþættir í hæfni hans og sýn til að leiða félagið í gegnum núverandi áskoranir og til frekari sóknar, og ná fram þeirri verðmætasköpun sem í félaginu býr til hagsbóta fyrir hluthafa félagsins og aðra hagaðila,“ segir Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marel.

Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, segist spenntur.

„Þegar ég hóf störf hjá Marel árið 2014 urðu mér ljós þau stóru tækifæri sem fólust í viðskiptamódeli félagsins og ekki síður þau gríðarlega jákvæðu áhrif sem við getum haft á virðiskeðju matvæla í heiminum. Ég er virkilega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð síðasta áratug. Tækifærin framundan eru ekki síður spennandi, og ég mun nota tímann vel næstu mánuði til að meta næstu skref í þeim sóknarfærum. Ég tek stoltur við forstjórakeflinu og hlakka til að starfa náið með samstarfsfólki mínu, viðskiptavinum og öðrum hagaðilum til að tryggja áframhaldandi framþróun og verðmætasköpun Marel, sem umbyltir matvælavinnslu í heiminum.”


Tengdar fréttir

Beiðni Árna Odds um framlengingu á greiðslustöðvun hafnað

Beiðni Árna Odds Þórðarsonar, fyrrverandi forstjóra Marels til tíu ára og einn stærsti hluthafinn í Eyri Invest, um heimild til framlengingar á greiðslustöðvun hefur verið hafnað af dómstólum, samkvæmt upplýsingum Innherja, en Landsbankinn hafði mótmælt því að hann fengi að vera áfram í slíku skjóli gagnvart kröfuhöfum. Óvissa er núna um mögulegar fullnustuaðgerðir kröfuhafa á hendur Árna Oddi en hlutur hans í fjárfestingafélaginu Eyri er meðal annars veðsettur gagnvart láni frá Landsbankanum.

Stjórnin hafi hagsmuni allra hluthafa að leiðarljósi

Stjórn Marel hefur svarað harðri gagnrýni evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital Partners, sem birti í dag opið bréf til stjórnarformannsins. Stjórnin segist hafa ýtrustu hagsmuni allra hluthafa og annarra hagaðila að leiðarljósi.

Yfirtökuboðinu var ætlað að hagnast á veikri stjórn Marels og erfið­leikum Eyris

Evrópski vogunarsjóðurinn Teleios Capital Partners, einn stærsti erlendi fjárfestirinn í hluthafahópi Marels með 3,3 prósenta hlut, gagnrýnir harðlega stjórn fyrirtækisins fyrir að hafa ekki gætt að umboðsskyldu sinni gagnvart öllum hluthöfum og segir vanhugsaðar ákvarðanir þáverandi stjórnenda Eyris valda því að fjárfestingafélagið rambi nú á barmi gjaldþrots. Sjóðurinn styður ákvörðun stjórnar að hafna mögulegu tilboði John Bean Technologies en segir þörf á skýrleika um eignarhald Marels, sem hafi ekki reynst farsælt með Eyri sem aðaleigenda, til framtíðar litið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×