Innlent

Skora á RÚV og vilja Ísrael út

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bragi Valdimar Skúlason er formaður stjórnar Félags tónskálda og textahöfunda.
Bragi Valdimar Skúlason er formaður stjórnar Félags tónskálda og textahöfunda. Silla Páls

Stjórn Félags tónskálda og textahöfunda hefur sent áskorun til útvarpsstjóra og stjórnar Ríkisútvarpsins þess efnis að taka ekki þátt í Eurovision-söngvakeppninni á næsta ári nema Ísraelum verði vikið úr keppni. 

„Okkur er öllum skylt að taka afstöðu gegn stríði og morðum á óbreyttum borgurum sem saklausum börnum. Við höfum alltaf val um að leggja ekki nafn okkar við slíkt hvort sem við erum einstaklingar eða stofnanir ríkisins. Við skuldum þeim þjóðum sem fara fram með offorsi í krafti hernaðarmáttar ekki að deila með þeim sviði á viðburði sem alla jafna einkennist af gleði og bjartsýni,“ segir í færslu félagsins á Facebook. 

Í samtali við fréttastofu segir Bragi Valdimar Skúlason, formaður stjórnar félagsins, að tilkynningin hafi verið send út í gær þar sem stjórn Ríkisútvarpsins á að funda í dag. 

„Við viljum að RÚV taki þessa ákvörðun, það sé ekki lagt á listafólk. Sem mun að öllum líkindum draga sig úr keppninni ef þetta verður óbreytt. Við erum að reyna að hvetja RÚV til að taka þessa ákvörðun svo það hvíli ekki á kannski fólki sem er eitthvað klofið milli samvisku sinnar og þess að fá tækifæri á stóra sviðinu sem er líka mjög eðlilegt. Við viljum frekar að ákvörðunin komi að ofan,“ segir Bragi. 

Viðbrögðin frá félagsmönnum hafa verið góð að sögn Braga. Þó sé þetta ekki pólitísk afstaða.

„Bara að við sitjum öll við sama borð. Við erum að tala um sömu forsendur og Rússum var vikið úr keppni í fyrra,“ segir Bragi. „Það er krafa um að það verði það sama látið yfir Ísrael ganga eins og Rússa. Þegar svona mál eru í gangi, að það sé ekki hoppað upp á svið bara í góðum fíling.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×