Sport

Fær 97 prósent launanna ekki borguð fyrr en eftir árið 2034

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sögulegur samningur Shohei Ohtani við Los Angeles Dodgers er nú orðinn enn sögulegri.
Sögulegur samningur Shohei Ohtani við Los Angeles Dodgers er nú orðinn enn sögulegri. Getty/ Jim McIsaac

Japanski hafnaboltamaðurinn Shohei Ohtani skrifaði undir risasamning við Los Angeles Dodgers á dögunum og færir sig því á milli liða í Los Angeles borg.

Ohtani er frábær leikmaður og hefur verið kosinn mikilvægasti leikmaður MLB-deildarinnar tvisvar sinnum á síðustu þremur árum. Hann þykir einn sá besti í sögunni og hefur verið líkt við Babe Ruth vegna fjölhæfni sinnar.

Ohtani mun fá sjö hundruð milljónir dollara borgaða fyrir tíu tímabil með Dodgers en það eru 98 milljarðar króna. Þetta er algjör metsamningur í bandarískum atvinnumannaíþróttum en það er ekki það eina sem er sérstakt við hann.

Það er þekkt að sumir leikmenn hafa fórnað peningum í samningum sínum til að auðvelda liði sínu að semja við betri leikmenn. Tom Brady, sigursælasti leikmaður NFL-deildarinnar, skildi þannig stórar upphæðir eftir á borðinu, en vann í staðinn marga titla með New England Patriots liðinu.

Ohtani og Dodgers bjóða upp á nýja útgáfu af slíkum samningi en þó með þeirri undantekningu að Ohtani fær allar sínar milljónir á endanum.

Laun Ohtani verða tvær milljónir dollara á ári næstu tíu árin, 282 milljónir króna, sem er svo sem alls ekki slæmt. Þá verður hann þó aðeins búinn að fá borgaða 20 af 700 milljónum samningsins. Hann fær 97 prósent launanna ekki borguð fyrr en eftir árið 2034.

Hann mun í staðinn fá 68 milljónir dollara á ári frá 2034 til 2043 eða meira en 9,5 milljarða króna á hverju ári. Árið 2034 verður Ohtani fertugur og hann verður 49 ára gamall þegar síðasti launagreiðslan fer inn á reikning hans.

Los Angeles Dodgers mun því hafa meira pláss undir launaþakinu til að semja við öfluga leikmenn til að spila með Ohtani á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×