Innlent

Til­kynnt um eld í heima­húsi í Hafnar­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Slökkvilið vann að reykræstingu eftir að búið var að slökkva eldinn.
Slökkvilið vann að reykræstingu eftir að búið var að slökkva eldinn. Vísir/Vilhelm

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út eftir að kviknað hafði í potti og eldavél í heimahúsi í Hafnarfirði.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem segir frá verkefnum gærkvöldsins og næturinnar. Þar kemur fram að húsráðendur hafi verið búnir að slökkva þegar lögregla og slökkvilið hafi komið á staðinn. Vann svo slökkvilið að reykræstingu.

Í tilkynningunni segir ennfremur að umferðaróhapp hafi orðið í Hafnarfirði þar sem bíl hafði verið ekið á ljósastaur. Var ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Í Reykjavík var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í hverfi 105 og 108 og þá var ökumaður bíls stöðvaður í miðborginni þar sem hann var mældur á 98 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60. „Í viðræðum við ökumann vaknaði grunur um að han væri undir áhrifum fíkniefna og var sá grunur staðfestur með munnvatnsprófi. Ökumaður því handtekinn og síðar látinn laus að lokinni sýnatöku.“

Í Kópavogi var tilkynnt um árekstur bíls og rafhlaupahjóls þar sem ökumaður rafhlaupahjólsins var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×