Innlent

Fengu leður­blöku á svalirnar í Kópa­vogi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Leðurblakan var þreytt að sjá.
Leðurblakan var þreytt að sjá. Harpa Eik

Harpa Eik Óskarsdóttir og Valgarð Hrafnsson urðu heldur betur hissa síðdegis í dag þegar leðurblaka flaug inn á lokaðar svalir þeirra á níundu hæð í fjölbýlishúsi í Kópavogi.

„Kærastinn minn var einn heima og hringdi í mig og sagði: „Harpa það er leðurblaka á svölunum mínum,“ segir Harpa í samtali við Vísi. Hún segist hafa haldið að hann væri að grínast og farið að hlæja.

„Þá hringdi hann í mig á Facetime og sýndi mér hana. Ég hélt í smá stund að þetta væri einhver filter,“ segir Harpa. Á myndbandi sem hún sendi fréttastofu má sjá að leðurblakan er ekki stór.

Umrædd leðurblaka er ekki sú fyrsta sem álpast hingað til lands en Vísir greindi frá því á síðasta ári þegar svokölluð trítilblaka fannst um borð í skipi á veiðum djúpt suðaustur af Íslandi.

Flaug aftur út

„Hún flaug í einhvern dágóðan tíma inni á svölunum, sem eru lokaðar fyrir utan einn glugga, þaðan sem hún flaug inn. Svo virðist hún bara hafa flogið út aftur,“ segir Harpa.

Hún segir að hún og Valgarð hafi ekki verið viss hvernig þau ættu að bregðast við á meðan leðurblakan var á staðnum. Þau byrjuðu á að hringja á lögreglu sem vísaði þeim á meindýreyði sem var á leiðinni til að fanga leðurblökuna þegar hún slapp út.

„Kærastinn minn og vinur hans fóru svo út á svalirnar í mjög miklum fötum að leita að henni og sjá hvort hún væri þarna enn. Við vildum auðvitað ekki drepa hana,“ segir Harpa. Hún bætir því við að hún voni að leðurblakan komist einhvern veginn í skjól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×