Innlent

Jóla­tré að seljast upp: „Engin lifandi jóla­tré á áramótabrennum í ár“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Lítið er eftir af lifandi jólatrjám í verslunum landsins.
Lítið er eftir af lifandi jólatrjám í verslunum landsins. Getty

Lifandi jólatré eru við það að seljast upp í verslunum landsins. Forstjóri Húsasmiðjunnar segist merkja breytingar í kauphegðun landans þegar kemur að trjánum, bæði sé fólk tímanlega í því en eins eru mun fleiri að færa sig yfir í gervitré.

„Salan er búin að vera alveg frábær, við erum að nánast að verða búin með lifandi tré,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar og Blómavals.

Eitthvað sé eftir af lifandi trjám í Blómavali í Grafarholti og á Selfossi, en í stærstu jólatréssölunni í Skútuvogi eru lifandi tré við það að klárast. Það sama gildir um Blómaval á Akureyri.

Fleiri að færa sig yfir í gervitré

Pantað var svipað magn af trjám og í fyrra, en Árni segist taka eftir því að fólk sé tímanlegra í innkaupunum í ár.

„Svo er gaman að segja frá því að núna er í raun í fyrsta sinn sem mér sýnist við selja meira af gervijólatrjám en lifandi. Það er eitthvað tískutrend í gangi, enda verða gervitrén fallegri með hverju ári.“

Þeir sem eiga eftir að verða sér úti um jólatré ættu að hafa hraðar hendur, að minnsta kosti ef til stendur að fjárfesta í lifandri tré.Getty

Þrátt fyrir aukningu í sölu gervitrjáa segir Árni þó ljóst að lifandi tré séu nú þegar komin upp í þúsundavís í stofum landsmanna.

„Það verða að minnsta kosti engin lifandi jólatré á áramótabrennum í ár“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×