Erlent

Hæsti­réttur neitar að flýta máli Trumps

Samúel Karl Ólason skrifar
Eitt helsta markmið Trumps virðist vera að fresta réttarhöldum í dómsmálum gegn honum þar til fram yfir forsetakosningarnar í nóvember á næsta ári.
Eitt helsta markmið Trumps virðist vera að fresta réttarhöldum í dómsmálum gegn honum þar til fram yfir forsetakosningarnar í nóvember á næsta ári. AP/Charlie Neibergall

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur neitað beiðni Jack Smith, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, um flýtimeðferð varðandi það hvort Donald Trump, fyrrverandi forseti, njóti enn þeirrar friðhelgi frá lögsóknum sem fylgir forsetaembættinu. Um sigur fyrir Trump er að ræða.

Trump stendur frammi fyrir fjórum ákærum vegna tilrauna hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna 2020 og lögmenn hans héldu því nýverið fram að hann nyti enn friðhelgi sem fyrrverandi forseti. Tanya S. Chutkan, einn af dómurunum sem eru yfir málunum gegn Trump, úrskurðaði gegn forsetanum fyrrverandi og sagði að það hafa setið í embætti forseta veitti manni ekki lífslangt leyfi til að brjóta af sér.

Sjá einnig: Saka Trump um að hafa æst fólk til of­beldis

Þá væri einnig hægt að ákæra þá fyrir brot sem þeir frömdu í embætti, eftir að þeir fari úr Hvíta húsinu.

Smith hafði beðið um að málið fengi flýtimeðferð hjá hæstarétti og að farið yrði framhjá hefðbundnum áfrýjunardómstólum á grundvelli þess að gífurlega mikilvægt væri að svara þessari spurningu eins fljótt og hægt væri.

Hæstiréttur sagði nei í gærkvöldi og gaf enga ástæðu fyrir ákvörðuninni, eins og er hefðin. Sex dómarar af níu voru skipaðir af forseta úr Repúblikanaflokknum og þrír dómaranna voru skipaðir af Trump.

Smith vonaðist til að réttarhöldin í einu máli hans gegn Trump geti hafist þann 4. mars en lögmenn Trumps hafa lagt mikið púður í að reyna að fresta öllum réttarhöldum með von um að þau dragist fram yfir kosningarnar í nóvember á næsta ári.

Smith vildi reyna á að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti og ljúki ferlinu þar áður en dómrarar fara í sumarfrí í júní. Það frí er yfirleitt til fyrsta mánudagsins í október og kosningarnar eru í byrjun nóvember.

Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum á undanförnum mánuðum.

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin eiga að hefjast 4. mars.

Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin eiga að hefjast í maí.

Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Réttarhöldin eiga að hefjast 25. mars.

Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en búið er að ákveða að sýnt verði frá þeim í beinni útsendingu.

Trump staðhæfði í yfirlýsingu í gær að hann hefði enn rétt á vernd forsetaembættisins og sagðist hlakka til þess að málið færi hefðbundna áfrýjunarleið.

Til stendur að áfrýjunardómstóll muni hlusta á rök saksóknara Smiths og lögmanna Trumps þann 9. janúar. Verið kröfu Trumps einnig hafnað þar, getur hann áfrýjað til Hæstaréttar og þá þurfa dómararnir þar að taka aðra ákvörðun um það hvort þeir vilji taka málið fyrir og þá hvenær.

Nokkur mál sem tengjast Trump á dagskrá

Hæstiréttur Bandaríkjanna á eftir að úrskurða í nokkrum málum sem tengjast Trump á komandi mánuðum, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Lögmenn Trumps ætla að biðja hæstarétt um að fella úr gildi úrskurð hæstaréttar Colorado um að Trump megi ekki vera á kjörseðlum þar vegna þess að tilraunir hans til að snúa úrslitum kosninganna 2020 jafngilti uppreisn og samkvæmt stjórnarskrá mætti hann ekki bjóða sig fram aftur.

Sjá einnig: Má ekki vera á kjör­seðlinum í Colorado

Hæstiréttur hefur einnig samþykkt að taka fyrir mál sem snýr að árásinni á þinghúsið þann 6. janúar 2021, þegar stuðningsmenn Trumps ruddust inn í þinghúsið. Markmið þeirra var að koma í veg fyrir formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna.

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins.AP/J. Scott Applewhite

Margir af stuðningsmönnum Trumps lýstu því einnig yfir að þeir vildu hengja Mike Pence, varaforseta Trumps, því hann neitaði kröfu Trumps um reyna að snúa úrslitum kosninganna. Þá ákvörðun tók Pence á grundvelli þess að hann hafði ekkert vald til að gera slíkt.

Í heild hafa rúmlega 1.200 manns verið ákærðir vegna árásarinnar og þar af hafa rúmlega sjö hundruð játað. Margir þeirra voru ákærðir fyrir að hindra starfsemi þingsins og að minnsta kosti 152 hafa verið dæmdir á þeim grunni eða játað. Dómarar hæstaréttar vilja segja til um hvort yfir höfuð sé hægt að ákæra þátttakendur í árásinni fyrir að hindra starfsemi þingsins.


Tengdar fréttir

Giuliani sækir um gjaldþrotaskipti

Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og fyrrverandi einkalögmaður Donalds Trump, hefur farið fram á gjaldþrotaskipti. Það gerði hann í New York í vikunni og tíundaði hann skuldir eins og mikinn lögfræðikostnað, ógreidda skatta og 148 milljónir dala, sem hann var nýlega dæmdur til að greiða mæðgum í skaðabætur.

Leynileg Rússamappa hvarf á síðustu dögum Trumps í Hvíta húsinu

Mappa sem innihélt leynileg skjöl og gögn um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, hvarf á síðustu dögum forsetatíðar Donalds Trump, og hefur ekki fundist enn það dag í dag. Forsvarsmenn leyniþjónusta Bandaríkjanna óttast að sum af best varðveittu leyndarmálum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra geti verið opinberuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×