Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands að áramótaveðrið líti misvel út eftir landshlutum. Á austanverðu landinu verði til að mynda norðaustan strekkingur og allhvass vindur með slyddu eða rigningu en snjókomu inntil landsins.
Búast má við heldur hægari vindi í öðrum landshlutum og verður að mestu bjart. Best verður þó á Faxaflóasvæðinu þar sem vindur verður fremur hægur fram eftir nóttu.
Gul viðvörun á Suðausturlandi
Gul viðvörun vegna hvassviðris eða storms er í gildi á Suðausturlandi frá klukkan 22 í kvöld fram til hádegis á nýársdag. Þar er spáð norðaustan 13 til 23 metrum á sekúndu með vindhviðum yfir 35 metrum á sekúndu, hvassast í Öræfum. Rigning eða slydda og jafnvel snjókoma í fyrstu. Fylgja þessu veðri erfið akstursskilyrði.
Á fyrsta dagi nýs árs heldur svo áfram að blása af norðaustri með rigningu eða slyddu, einkum austanlands. Hiti núll til sjö stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Norðaustan 10-18 m/s, hvassast syðst. Rigning eða slydda, en lítilsháttar snjókoma norðan heiða. Hiti yfirleitt 0 til 4 stig á láglendi.
Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt, 5-13 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Rigning með köflum suðaustan- og austanlands, stöku él norðantil, en lengst af þurrt á Vesturlandi. Hiti í kringum frostmark.
Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt og úrkomulítið víðast hvar. Heldur kólnandi.
Á fimmtudag:
Norðaustlæg átt, skýjað með köflum og dálítil él úti við norður- og austurströndina. Frost 0 til 10 stig.
Á föstudag:
Útlit fyrir hæga austlæga eða breytilega átt með éljum á víð og dreif. Hiti svipaður.
Á laugardag:
Líklega breytileg átt og snjókoma með köflum.