Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var fjallað um miklar verðhækkanir á landinu frá áramótum. Þar skoraði meðal annars framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á sveitarfélögin sérstaklega að endurskoða þeirra gjaldskrárhækkanir.
Hér fyrir neðan má sjá hækkun á gjaldskrám hinna ýmsu sveitarfélaga.

Þá var rætt við Heiðu Björg í beinni útsendingu en hún segist telja hækkanir sveitarfélaganna ekki svo miklar.
„Þetta virðist vera hjá flestum í kringum 7 prósent sem er töluvert lægra en verðbólgan sem er þá í rauninni raunlækkun. En við höfum líka verið alveg skýr með það að komi til þess að það verði samtal um einhverja þjóðarsátt eða leiðir til þess að ná böndum á verðbólgunni, þá erum við alveg tilbúin til þess að skoða það með sveitarfélögunum að vina ofan af því. Þá höfum við sérstaklega nefnt þau gjöld sem tengjast börnum og barnafjölskyldum,“ segir Heiða.
Viðtalið við Heiðu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Það hefst þegar 2:23 eru búnar af klippunni.
Hún kallar eftir sæti við borðið.
„Til þess að við getum gert það þurfum við að taka meira þátt í samtalinu og vita meira hvaða launahækkanir er verið að fara fram á og hvað útgjöldin okkar muni hækka mikið,“ segir Heiða.
Mikið hefur verið rætt um miklar hækkanir hjá bæði Sorpu og Strætó en gjöld þar hækka um ellefu og tólf prósent.

Heiða segir að henni finnist það afleitt að þurfa að hækka gjöldin hjá Strætó svo mikið og að hún væri til í að finna einhverja aðra leið.
„En varðandi Sorpu þá eru það einfaldlega lög sem hafa verið sett með aukinni flokkun og aðeins meiri flækjustigi. Við þurfum að vera duglegri að flokka, þá lækkar þetta aftur,“ segir Heiða.