Enski boltinn

Dort­mund vill fá Sancho strax í næstu viku

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sancho sést hér á æfingu með aðalliði Manchester United í ágúst en hann hefur hvorki æft né spilað fyrir félagið síðan þá.
Sancho sést hér á æfingu með aðalliði Manchester United í ágúst en hann hefur hvorki æft né spilað fyrir félagið síðan þá. Vísir/Getty

Viðræður eru í gangi á milli Manchester Untied og Borussia Dortmund um félagaskipti Jadon Sancho. Þýska liðið vill að Sancho mæti í æfingabúðir liðsins á Spáni í næstu viku.

Það hefur lítið gengið hjá Jadon Sancho síðustu misserin. Hann hefur aldrei náð sér á strik í rauðu treyjunni eftir að hann kom til félagsins frá Dortmund fyrir 73 milljónir punda og hefur ekki leikið fyrir félagið síðan í ágúst vegna ósættis við knattspyrnustjórann Erik Ten Hag.

Nú vill þýska liðið hins vegar fá hann aftur. Viðræður á milli félaganna um sex mánaða lánssamning hafa þegar átt sér stað og þýska liðið vill að Sancho verði mættir í æfingabúðir félagsins á Spáni strax í næstu viku.

Sancho hefur haldið sér í góðu formi og á ekki við nein meiðsli að stríða og gæti því strax hafist handa hjá þýska liðinu. Stuðningsmenn Dortmund eru sagðir spenntir fyrir endurkomu hans enda var hann vinsæll þeirra á meðal þegar hann lék með félaginu á árunum 2017-2021.

Samningur Sancho við United rennur út árið 2026 en félagið getur framlengt honum um eitt ár til viðbótar. Jim Ratcliffe og fyrirtæki hans INEOS keypti á dögunum 25% hlut í United og samkvæmt samningum þarf að ráðfæra sig við Ratcliffe ef stór félagaskipti eru í bígerð. Samkvæmt Skysports hefur það nú þegar verið gert og því margt sem bendir til þess að Sancho sé á leið til Þýskalands á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×