Reykjavíkurmótið í knattspyrnu hófst um síðustu helgi með leikjum í A-riðli. B-riðill hófst síðan í gær þegar KR vann sigur á Fram.
Í dag hélt keppni í B-riðli áfram þegar Valsmenn tóku á móti Þrótti. Leikurinn var ójafn og voru Valsmenn strax komnir í 3-0 í fyrri hálfleik. Patrick Pedersen skoraði fyrstu tvö mörkin og Tryggvi Hrafn Haraldsson bætti því þriðja við skömmu fyrir hálfleik.
Guðmundur Andri Tryggvason kom Val í 4-0 á 47. mínútu og Birkir Heimisson bætti fimmta markinu við sex mínútum síðar. Kári Kristjánsson minnkaði muninn fyrir Þrótt skömmu seinna en Patrick Pedersen fullkomnaði þrennu sína á 69. mínútu. Adam Ægir Pálsson rak smiðshöggið í uppbótartíma eftir að hafa komið inn sem varamaður í hálfleik.
Lokatölur 7-1.
Öruggt hjá Fylki
Í Árbænum mættust Fylkir og Fjölnir en bæði lið léku um síðustu helgi. Fjölnir gerði þá 2-2 jafntefli við Leikni en Fylkismenn töpuðu fyrir Íslands- og bikarmeisturum Víkinga 4-2.
Í dag voru það hins vegar Fylkismenn sem náðu í sinn fyrsta sigur. Fyrirliðinn Orri Sveinn Stefánsson og Unnar Steinn Ingvarsson komu Fylki í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik. Guðmundur Tyrfingsson, Theodór Ingi Óskarsson og Ásgeir Eyþórsson bættu allir við mörkum í síðari hálfleik og tryggðu Fylki 5-0 sigur.