Handbolti

„Tökum þessum tveimur stigum fegins hendi“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Snorri Steinn þungur á brún á meðan leik stóð.
Snorri Steinn þungur á brún á meðan leik stóð. Vísir/Vilhelm

„Var í max púls, fullt af mjólkursýru og hefði komið illa út úr þrekprófi,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson eftir hádramatískan sigur Íslands á Svartfjallalandi á EM karla í handbolta sem fram fer í Þýskalandi.

Eftir vægast sagt dramatískan leik gegn Serbíu þar sem Ísland bjargaði stigi á ótrúlegan hátt þá var leikur dagsins engu minna dramatískur. Að þessu sinni hafði Ísland þó betur sem þýðir að það er úrslitaleikur við Ungverjaland á þriðjudag um toppsæti riðilsins.

„Mér leið betur þegar ég var inn á vellinum, fannst ég geta gert meira þar,“ sagði Snorri Steinn aðspurður hvernig væri að vera þjálfari í svona leik. Hann hélt svo áfram:

„Líður ekki illa, ég hef trú á þessu og hef trú á þessum strákum. Leikurinn þróaðist hins vegar út í þetta. Það er auðvelt að brotna niður í miðjum leik, fannst strákarnir aftur sýna karakter. Getum að einhverju leyti kennt sjálfum okkur um að leikurinn þróast í þessa átt.“

„Það eru augnablik þar sem við getum náð meiri tökum á þessum leik, þurfum að sýna meiri gæði. Förum illa með mikið af dauðafærum og allt það. Situr samt aðallega í mér þessir kaflar þar sem við erum að ná undirtökum en náum ekki að negla það, þurfum að skoða það betur.“

„Sóknarleikurinn klárlega, varnarleikurinn kaflaskiptur en fannst við sýna okkar rétta andlit sóknarlega. Fundum betri lausnir. Það er fullt jákvætt í þessu, Bjöggi (Björgvin Páll Gústavsson) með frábæra innkomu. Tökum þessum tveimur stigum fegins hendi.“

Að endingu var Snorri Steinn spurður hvort þungu fargi væri af sér létt.

„Já og nei. Kannski finn ég það þegar ég kem á hótelið og nær mér niður. Mikilvægt að vinna eftir dapra frammistöðu í síðasta leik og fá þá tilfinningu. Komum okkur líka í þá stöðu að geta unnið riðilinn.“

Klippa: Viðtal við Snorra Stein eftir leik við Svartfjallaland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×