Senegalar urðu Afríkumeistarar í fyrsta sinn fyrir tveimur árum og eiga því titil að verja á mótinu í ár sem fer fram á Fílabeinsströndinni. Titilvörnin hófst vel en senegalska liðið bar sigurorð af því gambíska í dag.
Senegal byrjaði leikinn af krafti og strax á 4. mínútu kom Pape Gueye, leikmaður Marseille, liðinu yfir eftir sendingu frá Sadio Mané, fyrirliða og skærustu stjörnu senegalska liðsins.
Í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Ebou Adams, miðjumaður Gambíu, beint rautt spjald og liðið var því manni færri allan seinni hálfleikinn.
Senegalar voru fljótir að nýta sér liðsmuninn því á 52. mínútu skoraði Lamine Camara annað mark liðsins.
Hann var aftur á ferðinni fjórum mínútum fyrir leikslok þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Senegals. Camara er tvítugur miðjumaður Metz í Frakklandi.
Seinna í dag mætir Kamerún Gambíu í hinum leiknum í C-riðli. Næsti leikur Senegala er gegn Kamerúnum á föstudaginn.