Handbolti

Fær­eyingar eiga tvo marka­hæstu leik­menn EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elias Ellefsen á Skipagøtu kom að 47 mörkum í þremur leikjum færeyska liðsins, skoraði 23 mörk og gaf 24 stoðsendingar.
Elias Ellefsen á Skipagøtu kom að 47 mörkum í þremur leikjum færeyska liðsins, skoraði 23 mörk og gaf 24 stoðsendingar. Getty/Marco Steinbrenner

Færeyska handboltalandsliðið er á heimleið frá Evrópumótinu í handbolta í Þýskalandi eftir tap fyrir Póllandi í gær.

Færeyingar yfirgefa Þýskaland sem hetjur í heimalandinu enda náði liðið í stig á móti Noregi og stóð í bæði Slóveníu og Póllandi. Ekki slæmt á þeirra fyrsta stórmóti og hjá þessari fámennu þjóð.

Athygli vekur að Færeyingar eiga nú tvo markahæstu leikmenn Evrópumótsins eftir leikina í gær.

Þetta eru þeir Hákun West Av Teigum og Elias Ellefsen á Skipagøtu. Báðir skoruðu þeir 23 mörk í þremur leikjum liðsins í riðlakeppninni en Hákun nýtti 85 prósent skota sinna.

Elias var aftur á móti allt í öllu í sóknarleik færeyska liðsins og er einnig með langflestar stoðsendingar á mótinu eða 24 talsins.

Elias var því með 7,7 mörk og 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leikjum liðsins og kom því að 15,7 mörkum að meðaltali í leik.

Hann kom þannig að ellefu fleiri mörkum en Daninn Mathias Gidsel sem situr í öðru sætinu eftir leikina í gær en helmingur riðlanna eiga eftir að spila sinn síðasta leik.

EHF



Fleiri fréttir

Sjá meira


×