Danmörk og Holland eru í hinum milliriðli mótsins ásamt Noregi, Portúgal, Slóveníu og Svíþjóð. Danmörk tók tvö stig með sér áfram, líkt og Slóvenía og Svíþjóð. Danir eru því með fullt hús stiga eftir fyrsta leik í milliriðli, Svíar og Slóvenar eigast við klukkan 19:30.
Danir byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu tvö mörkin en Hollendingar héldu vel í þá. Þeim tókst svo að jafna um miðjan fyrri hálfleik og leikurinn hélst hnífjafn út hálfleikinn.
Rutger ten Velde dró Hollendinga áfram í þessum leik og var langbesti leikmaður liðsins. Hann lék sér líka að Niklas Landin á vítalínunni í kvöld. Fyrstu þrjú vítin setti hann milli fóta Landin, sem ætlaði alls ekki að láta klobba sig í fjórða vítinu.
Fljótlega þegar komið var út í seinni hálfleik hikaði hollenska liðið um stundarsakir. Það þurfti ekki nema fimm mínútna slæman kafla, Danmörk skoraði sjö mörk í röð, staðan fór úr 23-22 í 30-22 og þá var ekki aftur snúið fyrir Holland.
Mathias Gidsel fór fremstur í liði Dana og skoraði 9 mörk, Mikkel Hansen fylgdi honum eftir með fimm mörk, líkt og Rasmus Schmidt og Simon Pytlick.
Næsta umferð fer fram á föstudag, þar mætir Danmörk nágrönnum sínum frá Svíþjóð og Hollendingar mæta Norðmönnum.