Leikjaálagið á bestu fótboltamenn heims hefur aukist gríðarlega undanfarinn áratug og bæði UEFA og FIFA virðast leita allra leiða til að fjölga leikjum til að græða meiri pening.
Í viðtali við breska blaðið GQ þá sagði franski framherjinn að þessi þróun gæti búið til gjá á milli leikmanna, liða og stuðningsmannanna sem mæta á leikina.
„Við nálgumst óðum NBA módelið með tímabil með sjötíu leikjum. Ég persónulega hef ekkert á móti því að spila marga leiki en fyrir vikið munum við ekki geta sýnt eins góða frammistöðu í hvert skiptið eða gefið áhorfendum þá sýningu sem þeir eru komnir til að sjá,“ sagði Mbappé.
„Í NBA-deildinni spila leikmennirnir ekki alla leiki og félögin eru að passa upp á álagið á þeim. Ef ég myndi segja einhvern tímann: Ég er þreyttur og ætla ekki að spila á laugardaginn, þá yrði því ekki vel tekið,“ sagði Mbappé.
„Áhorfandinn borgar fyrir miðana og sumir sjá þig kannski bara spila einu sinni á tímabilinu. Þeir vilja sjá frammistöðu sem stendur undir nafni og það er skiljanlegt,“ sagði Mbappé.
„Ég vil ekki predika en við þurfum að hugsa um þetta í sameiningu og finna hvað sé besta mögulega lausnin fyrir alla. Besta lausnin fyrir leikmenn, áhorfendur, liðin og ráðamenn fótboltans. Eitthvað sem allir geta sætt sig við,“ sagði Mbappé.