Þetta upplýsir Sverrir Einar í færslu á Facebook. Sverrir og Vesta Mikute unnusta hans keyptu skemmtistaðinn við Bankastræti 5 í Reykjavík í júní í fyrra með það að markmiði að endurvekja gömlu stemmninguna á B5 frá því hann var, að þeirra sögn, besti næturklúbbur borgarinnar.
Babb kom í bátinn í lok sumars þegar í ljós kom að staðurinn mætti ekki heita B5. Samkvæmt Hugverkastofu var vörumerkið B5 skráð í eigu KG ehf. og verið notað í heimildarleysi frá því staðurinn var opnaður á ný. Brá Sverrir á það ráð að breyta nafni staðarins í B.
En nú hefur hringnum mögulega verið lokað með því að taka að nýju upp nafn B5 þó málið sé óleyst fyrir dómstólum.
„Í gangi er dómsmál þar sem tekist er á um notkun nafnsins, en lögmaður okkar, Sveinn Andri Sveinsson, segir ekki séu forsendur til þess að meina okkur að notast við skammstöfun á heimilsfangi staðarins og það geti enginn átt einkarétt sem kemur í veg fyrir lögmæta notkun eigenda á heimilisfangi,“ segir Sverrir Einar.
Hann hefur ekki setið auðum höndum undanfarið. Á dögunum var greint frá nýlegu samstarfi hans og Ásdísar Ránar Gunnarsdóttur varðandi fegurðarsamkeppnina Miss Bikini Iceland. Þá greindi Sverrir Einar frá því á dögunum að óprúttnir aðilar hefðu haft í hótunum við sig og reynt að kveikja í hóteli sem hann rekur við Skipholt.
Sverrir Einar bauð 100 þúsund krónur í fundarlaun, hverjum þeim sem gæti veitt traustar upplýsingar varðandi brennuvargana sem sjá má með andlit sitt hulið í myndbandinu að ofan.