Handbolti

Ólympíuvonin veiktist eftir sigur Portúgals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Portúgal á góða möguleika á að komast í undanúrslit á EM í Þýskalandi.
Portúgal á góða möguleika á að komast í undanúrslit á EM í Þýskalandi. getty/Claus Bergmann

Portúgal sigraði Slóveníu, 30-33, í fyrsta leik dagsins á EM karla í handbolta. Portúgalir eru þar með komnir með fjögur stig í milliriðli 2 sem eru vondar fréttir fyrir Íslendinga í baráttunni um að komast í forkeppni Ólympíuleikanna.

Ísland er í baráttu við Austurríki, Holland og Portúgal um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna. Tvö af fjórum þessara liða fara væntanlega í hana. Portúgalir eru nú með fjögur stig í milliriðli 2 en Hollendingar ekkert. Í milliriðli 1 eru Austurríkismenn með þrjú stig en Íslendingar ekkert.

Eftir jafnar upphafsmínútur náði Portúgal undirtökunum og komst í 6-10 eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð. Slóvenía svaraði vel fyrir sig og komst tveimur mörkum yfir, 16-14, skömmu fyrir hálfleik. Portúgal skoraði hins vegar fjögur af síðustu fimm mörkum fyrri hálfleiks og leiddi 17-18 eftir hann.

Portúgalir stigu á bensíngjöfina í stöðunni 22-22, skoruðu sex mörk gegn einu og litu ekki um öxl eftir það. Slóvenar minnkuðu muninn reyndar í 28-29 en þá tók slóvenska liðið aftur fram úr. Á endanum munaði þremur mörkum á liðunum, 30-33.

Martim Costa átti stórleik fyrir Portúgal og skoraði ellefu mörk. Leonel Fernandes skoraði fimm og Francisco Costa, yngri bróðir Martims, fjögur. 

Borut Mackovsek skoraði sjö mörk fyrir Slóveníu sem er með tvö stig í 4. sæti milliriðils 2. Portúgal er í 3. sætinu með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×