Greint var frá því í gær að vistaskipti Jónatans Inga frá Sogndal til Vals væru yfirvofandi og nú hefur félagið staðfest að kantmaðurinn sé genginn í raðir Valsmanna.
Jónatan er 24 ára gamall kantmaður sem hefur leikið með Sogndal í Noregi undanfarin tvö ár þar sem hann kom að 43 mörkum í 60 leikjum. Hann er uppalinn FH-ingur og á að baki tvo leiki fyrir íslenska A-landsliðið.
„Ég er kominn hingað til þess að vinna titla og komast sem lengst í Evrópu, ásamt því auðvitað að halda áfram að bæta mig persónulega sem leikmann. Ég er mjög spenntur að koma í Val og hlakka til að kynnast klúbbnum betur,“ segir Jónatan Ingi í tilkynningu Valsmanna.