Handbolti

Frakkar í úr­slit eftir fram­lengingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elohim Prandi reyndist hetja Frakka og skaut þeim í framlengingu.
Elohim Prandi reyndist hetja Frakka og skaut þeim í framlengingu. Christof Koepsel/Getty Images

Frakkar eru komnir í úrslit Evrópumótsins í handbolta eftir fjögurra marka sigur gegn Svíum í framlengdum leik undanúrslitum í dag, 34-30.

Frakkar höfðu góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik og náðu sex marka forskoti þegar liðið skoraði sex mörk í röð og breytti stöðunni úr 4-4 í 10-4 á stuttum kafla. Franska liðið náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik, en leiddu með sex mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 17-11.

Það bjuggust líklega flestir við því að brekkan væri orðin heldur brött fyrir Svíana, en sænska liðið mætti af miklum krafti í síðari hálfleikinn. Sænska liðið skoraði sjö af fyrstu átta mörkum seinni hálfleiks og jöfnuðu metin í 18-18.

Franska liðið náði þó þriggja marka forystu á ný, en Svíar jöfnuðu fljótt aftur og náðu forystunni í stöðunni 22-23 þegar um tíu mínútur voru eftir. Svíar héldu eins til tveggja marka forystu það sem eftir lifði leiks og virtust vera að vinna gríðarlega sterkan eins marka sigur, 26-27.

Boltinn var hins vegar dæmdur af Jim Gottfridsson á lokasekúndunum og Frakkar fengu einn séns til að jafna metin. Þeir fengu aukakast þegar tíminn var runninn út sem Elohim Prandi tók og hann náði að koma boltanum framhjá veggnum, í slána og þaðan fór hann í netið. Niðurstaðan eftir venjulegan leiktíma því 27-27 og því þurfti að grípa til framlegningar til að skera úr um sigurvegara.

Í framlengingunni reyndust Frakkar mun sterkari og þeir leiddu með tveimur mörkum þegar fyrri hálfleik hennar lauk, 30-28. Franska liðið náði svo fjögurra marka forystu þegar um tvær mínútur voru eftir og unnu að lokum fjögurra marka sigur, 34-30.

Frakkar eru þar með á leið í úrslit EM þar sem liðið mætir annað hvort Danmörku eða Þýskalandi næsta sunnudag. Svíar þurfa hins vegar að gera sér það að góðu að leika um bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×