Innlent

Tveir hand­teknir fyrir að virða ekki lokanir vegna snjó­flóða­hættu

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ofanflóðaeftirlit Veðurstofu Íslands hefur metið yfir 40 prósent líkur á að snjóflóð nái yfir vegi.
Ofanflóðaeftirlit Veðurstofu Íslands hefur metið yfir 40 prósent líkur á að snjóflóð nái yfir vegi. Lögreglan á Vestfjörðum

Lögreglan á Vestfjörðum handtók í nótt ökumann og farþega bifreiðar sem virtu ekki lokunarpóst á veginum frá Súðavíkur til Ísafjarðar. Veginum hafði verið lokað vegna mikillar snjóflóðahættu.

Veginum var lokað klukkan 19:30 í gærkvöldi af öryggisástæðum vegna mikillar snjóflóðahættu. Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum kemur fram að afskipti voru höfð af ökumanni og farþega bifreiðar, sem reyndust hafa opnað lokunarhlið á veginum við Ísafjörð og haldið til Súðavíkur.  Þeir skildu hliðið  eftir opið og héldu síðar um kvöldið til baka til Ísafjarðar.

„Þeim sem í bifreiðinni voru var kynnt að þeir yrðu kærðir vegna háttsemi sinnar. Alvarleiki hátternisins var ítrekaður fyrir þeim og kynnt að öll almenn umferð væri bönnuð um veginn til morguns að minnsta kosti, meðan lokunarhliðin væru fyrir veginum,“ segir í tilkynningunni.

Háttsemin litin alvarlegum augum

Hliðinu var lokað og gengið úr skugga um að enginn væri á ferð á vegarkaflanum milli lokunarhliðanna. Skömmu síðar sáu lögreglumenn bifreið ekið innan lokunarsvæðisins í Skutulsfirði í átt að Súðavík.

„Reyndust þar á ferð sömu einstaklingar og fyrr um nóttina. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangageymslum enda háttsemi þeirra til þess fallinn að stuðla að hættu fyrir þá, aðra vegfarendur sem og viðbragsaðila.“

Einstaklingunum tveimur hefur nú verið sleppt eftir yfirheyrslur. Í tilkynningunni kemur fram að háttsemin sé litin alvarlegum augum enda lokun vegarins til komin af brýnni ástæðu. Ofanflóðaeftirlit Veðurstofu Íslands hefur metið yfir 40 prósent líkur á að snjóflóð nái yfir vegi.

„Enginn ætti að leika sér að þessum eldi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×