Innlent

Nálgast sömu stöðu og fyrir gos

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Landris hefur hægt á sér síðustu daga.
Landris hefur hægt á sér síðustu daga. Vísir/Arnar

Sama magn kviku, eða um 6,5 milljón rúmmetrar, hefur flætt inn í kvikuholfið undir Svartsengi frá goslokum og talið er að hafi flætt inn í kvikuinnskotið í aðdraganda eldgoss 14. janúar síðastliðinn.

Þannig nálgist kvikuhólfið sömu stöðu og þegar gaus og búist er við því að dragi til tíðinda á svæðinu á næstu dögum. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands skrifar um þetta á Facebook.

„Enn er þó fremur lítil skjálftavirkni á helsta umbrotasvæðinu við Grindavík og þar norður af. Í dag hefur skolfið nokkuð í hafi skammt undan Reykjanesi. Nú í kvöld urðu svo skjálftar enn lengra frá landi, nærri Geirfuglaskeri. Stærsti skjálftinn þar hingað til mældist 2,9 að stærð,“ kemur fram í færslu hópsins frá í dag.

GPS-stöðvar í grennd við Svartsengi hafa mælt landris upp á um átta millimetra á dag síðustu vikur en nokkuð hefur dregist úr rishraðanum síðustu daga.

„Mjög sambærilegur ferill var sýnilegur í aðdraganda innskotana tveggja í nóvember og desember.“

Samkvæmt hópnum skal þó hafa í huga að tímabundnir hnökrar hafi komið fram á mælum á síðustu vikum sem mætti mögulega tengja við veður og snjó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×