Það var á borgarstjórnarfundi í dag sem Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs kynnti hönnun nýja svæðisins.
Hluti Austurstrætis hefur lengi verið göngugata, fram að gatnamótum Pósthússtrætis, en nú á að klára verkefnið og verður strætið allt að göngugötu. Veltusundið og Kirkjustræti breytast í göngugötu. Pósthússtrætið verður metið í samráði og verður annað hvort vistgata eða göngugata.
„Og þetta mun gera svæðið að fjölnota skemmtilegu rými, bæði fyrir leik, samverustundir fjölskyldna og vina en líka þjóna mun vel veitingarekstri hér á svæðinu og verða svæði sem mun nýtast í því samhengi,“ segir Dóra Björt.
Nú sé unnið að því að klára hönnun og skipulag auk þess sem fulltrúar borgarinnar ætla að hefja samtal við íbúa og atvinnulífið á svæðinu.

Dóra Björt segir breytinguna lyftistöng fyrir svæðið sem almannarými þar sem áhersla verður lögð á gróður, áningarstaði og lýsingu.
„Þetta er sögulegt svæði og er í raun fyrsta skilgreinda göngugata borgarinnar, meðal annars árið1974 og svo aftur 1986 að mér skilst.“

Því hafi verið ákveðið að huga að sögunni í hönnun og mun hið gamla mæta hinu nýja.
„Hérna þessi gatnamót við Pósthússtrætið var áður hlið inn í Reykjavík þegar þú komst sjóleiðina og það á að lyfta því í hönnuninni þannig þetta verður ótrúlega fallegt og mun halda vel utan um fólk.“