Sport

Guð­rún Karítas fjórða í öllum Banda­ríkjunum eftir hrinu Ís­lands­meta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir er 21 árs gömul og hún er á sínu þriðja ári í Virginia Commonwealth University,
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir er 21 árs gömul og hún er á sínu þriðja ári í Virginia Commonwealth University, @vcutracknxc)

ÍR-ingurinn Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir er að gera frábæra hluti á þessu tímabili í háskólakeppninni í frjálsum íþróttum í Bandaríkjunum. Hún hefur margbætt Íslandsmetið á árinu 2024.

Guðrún Karítas er 21 árs gömul og hún er á sínu þriðja ári í Virginia Commonwealth University, VCU, sem er skóli í Richmond í Virginíu fylki á austurströnd Bandaríkjanna.

Það er óhætt að segja að hún sé að blómstra á þessu tímabili í íþrótt sinni að kasta 9,08 kílóa lóði. Guðrún Karítas kastar síðan sleggju á sumrin.

Guðrún Karítas hefur sett Íslandsmet í lóðakasti á þremur síðustu helgum og alls bætt gamla metið sitt um meira en 2,4 metra á aðeins nokkrum vikum.

Guðrún byrjaði á því að kasta fjórum sinnum yfir gamla Íslandsmetinu á fyrsta mótinu. Lengsta kastið hennar var 20,37 metrar en gamla metið frá árinu 2023 var 20,03 metrar.

Á því næsta kastaði hún 21,87 metra og bætti þar því metið um einn og hálfan metra. Hún bar sigur úr býtum á því móti.

Guðrún Karítas keppti síðan á Doc Hale VT Meet í Blacksburg, Virginia um síðustu helgi og bætti þá eigið met enn og aftur sem gerir þetta enn og aftur að besta árangri í lóðkasti kvenna frá upphafi.

Hún kastaði lóðinu 22,44 metra en það er rúmlega hálfs metra bæting hjá Guðrúnu og dugði henni til sigurs á mótinu. Hún er að sjálfsögðu að bæta skólametið hjá VCU í leiðinni.

Með þessum árangri komst Guðrún líka upp í fjórða sætið yfir besta árangurinn í lóðakasti í háskólakeppninni í frjálsum íþróttum í Bandaríkjunum. Skólinn hennar segir frá þessu á heimasíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×