Þetta er meðal þess sem fram kemur í afkomutilkynningu sem félagið birti eftir lokun markaða í gær. Þar segir að félagið hafi vaxið hratt síðan það hóf flug í fyrsta sinn í júní 2021.
„Á vaxtaskeiði sínu hefur félagið glímt við ítrekuð ytri áföll, nú síðast eldgos á Reykjanesi í morgun. Það er mat félagsins að skynsamlegt sé að styrkja lausafjárstöðuna enn frekar, með hlutafjáraukningu, þannig að félagið sé í stakk búið til að grípa vaxtatækifæri og mæta ófyrirséðum atburðum.“
Fram kemur að félagið hafi ráðið þrjá ráðgjafa vegna hlutafjáraukningarinnar, Arctica Finance hf. sem umsjónaraðila og Fossa fjárfestingarbanka hf. og Greenhill (Mizuho) sem söluaðila. Segir að ráðgjafar félagsins muni á næstu vikum hefja samtal við fjárfesta og muni útfærsla á fyrirkomulagi hlutafjáraukningarinnar meðal annars taka mið af þeim samtölum.
„Árið 2024 verður fyrsta árið í rekstri PLAY þar sem ekki verður bætt við nýjum flugvélum og að öllu óbreyttu myndi félagið ekki þurfa aukið fjármagn fyrir 2024,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.
„Atburðir undafarna vikna hafa sýnt okkur að staða flugfélaga getur breyst hratt og er það mat félagsins að styrkja þurfi lausafjárstöðuna.“