Skoðun

Mikil­væg upp­bygging orkuinnviða HS Orku á Reykja­nesi

Birna Lárusdóttir skrifar

Allra augu beinast nú að orkuinniviðum á Reykjanesskaga. Þar eru fordæmalausar aðstæður uppi sem valda því að heilt landsvæði hefur sem stendur ekki aðgengi að grunnþjónustu sem við Íslendingar teljum sjálfsagða. HS Orka er í miðju þessara atburða og leggur nú nótt við dag til að koma heitu vatni aftur til samfélagsins á Suðurnesjum. Fjölmargir standa að því verkefni með okkur s.s. almannavarnir, HS Veitur, verkfræðistofur og fjöldi verktaka. Samhliða því er áfram unnið að vörnum annarra mikilvægra orkuinnviða á svæðinu.

Gagnrýni byggð á villandi upplýsingum

Við þær aðstæður sem nú eru uppi heyrast raddir um að betur færi á því að orkufyrirtæki á borð við HS Orku væru ekki í einkaeigu heldur færu ríki eða sveitarfélög með eignarhaldið. Því er haldið fram að ábati af rekstri fyrirtækisins skili sér ekki í uppbyggingu innviða samfélagsins heldur hverfi úr landi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Fjárfestingar í héraði

Eigendur HS Orku eru til helminga Jarðvarmi, fjárfestingafélag í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, og Ancala Partners, breskur fjárfestingasjóður sem sérhæfir sig í innviðafjárfestingum víða um heim.

Frá árinu 2020 hefur HS Orka varið um 14 milljörðum króna í uppbyggingu innviða fyrirtækisins. Fyrirtækið stækkaði Reykjanesvirkjun um 30MW og lokið var við 10MW vatnsaflsvirkjun að Brú í Biskupstungum. Nú standa yfir framkvæmdir við stækkun og endurbætur orkuversins í Svartsengi, en þar er um að ræða fjárfestingu sem ein og sér er áætlað að kosti á þrettánda milljarð króna. Áætlanir okkar gera ráð fyrir ríflega 12 milljörðum í fjárfestingar til frekari vaxtar á næstu tveimur árum. Samtals gerir þetta hátt í 27 milljarða í beinni fjárfestingu í innviðum HS Orku hér á landi.

Milljarðafjárfestingar framundan

Hafnar eru boranir á nýjum borholum á Reykjanesi en hver borhola getur kostað í kringum milljarð króna. Jafnframt er fyrirtækið með metnaðarfull áform um uppbyggingu innviða í Krýsuvík, ekki síst til mögulegrar heitavatnsframleiðslu fyrir höfuðborgarsvæðið. Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum er sömuleiðis áfram á teikniborðinu. Virkjunin mun meðal annars stuðla að auknu afhendingaröryggi raforku um allt land þar sem hún er fyrirhuguð á köldu svæði, fjarri jarðhræringunum á Reykjanesskaga. Ef þessi áform raungerast fela þau í sér tugmilljarða króna í fjárfestingar.

Vonandi reynist gagnlegt að hafa þessar upplýsingar á takteinum í umræðunni um uppbyggingu orkuinnviða og eignarhald á orkufyrirtækjum á Íslandi.

Höfundur er upplýsingafulltrúi HS Orku.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×