Sport

Fékk tólf ára keppnis­bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það fannst sannkallaður sterakokteill í sýni þeirra indversku.
Það fannst sannkallaður sterakokteill í sýni þeirra indversku. Getty/Robert Michael

Indverski sleggjukastarinn Kumari Rachna má ekki keppa aftur fyrr en í fyrsta lagi árið 2035.

Rachna hefur verið dæmd í tólf ára keppnisbann fyrir að nota fjölmörg ólögleg efni. Bannið nær nákvæmlega frá 24. nóvember 2023 til 23. nóvember 2035.

Í sýni hennar fundust sterarnir Stanozolol, Metandienone, DHCMT og Clenbuterol og það var því að nægu að taka hjá henni. Stanozolol er þekktast fyrir að vera sterinn sem felldi Ben Johnson á lyfjaprófinu á ÓL í Seoul 1988l.

Rachna hafði áður fallið á lyfjaprófi árið 2015 og fékk þá fjögurra ára bann.

Rachna er þrítug og verður því 42 ára gömul þegar hún má keppa á ný. Það er líklegast að ferli hennar sé lokið.

Hún varð indverskur meistari í sleggjukasti á síðasta ári og varð í níunda sæti á Asíuleikunum. Hún kastaði 65,03 metra á indverska mótinu en 58,13 metra á Asíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×