Þetta segir í tilkynningu á vef Hagstofunnar. Þar segir að gjaldþrot virkra fyrirtækja hafi verið um þrefalt fleiri bæði í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, þar sem þau voru 150, og í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum þar sem þau voru 57.
Gjaldþrot í einkennandi greinum ferðaþjónustu hafi verið 56, eða 155 prósent fleiri en á fyrra ári, og í öðrum atvinnugreinum hafi þau verið 143, eða 131 prósent fleiri en á fyrra ári.
Fjöldi launamanna miklu meiri
Þegar tekin séu saman þau fyrirtæki sem lýst voru gjaldþrota árið 2023 hafi fjöldi launamanna verið að jafnaði árið áður um 1.991. Þetta sé um 139 prósent fleiri en árið 2022 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru að jafnaði 834. Hvort sem miðað sé við fjölda launafólks eða virðisaukaskattskylda veltu á fyrra ári hafi áhrif gjaldþrota árið 2023 verið meiri en árið 2022 í öllum atvinnugreinaflokkum.
Færri gjaldþrot í desember
Í tilkynningunni segir þó að samtals hafi 56 fyrirtæki, sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins, verið tekin til gjaldþrotaskipta í desember síðastliðnum. Af þeim hafi 21 verið með virkni á síðasta ári, það er annað hvort með launafólk samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem sé 9 prósent færri en í desember 2022.
Hjá fyrirtækjum sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fjórða ársfjórðungi 2023 hafi fjöldi launamanna að jafnaði verið um 704 á fyrra ári eða 56 prósent fleiri en á fjórða ársfjórðungi 2022 þegar þeir voru um 450.
Mælt í fjölda launafólks á fyrra ári hafi áhrif gjaldþrota á fjórða ársfjórðungi 2023 meiri en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum helstu atvinnugreinaflokkum (byggingarstarfsemi, verslun og ferðaþjónustu) en í öðrum atvinnugreinum hafi áhrifin minni verið minni.