Lífið

Leið yfir gest á Kannibalen

Jakob Bjarnar skrifar
Fjölnir Gíslason og Jökull Smári Jakobsson í hlutverkum sínum. Víst er að efni verksins er ekki fyrir viðkvæmar sálir.
Fjölnir Gíslason og Jökull Smári Jakobsson í hlutverkum sínum. Víst er að efni verksins er ekki fyrir viðkvæmar sálir. Sandijs Ruluks

„Við vitum að textinn er afar grófur. Þó að það sjáist aldrei neitt blóð eru lýsingarnar grafískar,“ segir Fjölnir Gíslason, einn aðalleikari sýningarinnar Kannibalen í Tjarnarbíói.

Stöðva þurfti sýningar eftir að gestur féll í yfirlið. Atvikið átti sér stað sunnudagskvöldið 11. febrúar en um er að ræða danska verðlaunasýningu sem byggir á sannsögulegu og afar ógeðfelldu mannátsmáli sem átti sér stað í Þýskalandi í kringum aldamótin.

Í Kannibalen segir af því þegar Armin Meiwes drap, bútaði niður og át ungan mann að nafni Bernd-Jürgen Brandes. Það sem gerði morðmálið svo einstakt er að fórnarlambið gaf fullt leyfi fyrir verknaðinum. Leiktextinn segir frá kynnum þessara manna, aðdraganda ofbeldisverknaðarins ásamt ítarlegum lýsingum á verknaðinum sjálfum. Og svo grófar og myndrænar eru lýsingarnar að gestur féll í yfirlið á hápunkti sýningarinnar, eins og áður segir.

Fjölnir leikur mannætuna og segir hann leikara hafa verið við því búnir að annað eins og þetta gæti gerst.

„Við höfðum frétt frá leikskáldinu að á frumsýningu dönsku uppfærslunnar hafi liðið yfir tvo gesti, á mismunandi tíma. Leikstjórinn þurfti að fara upp á svið til að minna gesti á það að þeir væru bara staddir í leikhúsi. Þegar sýningarstjórinn í Tjarnarbíó sá hvað var að gerast tók hann húsljósin upp, við hættum að leika og svo tók starfsfólk á móti gestinum í forsalnum með djús og kex.“

Fjölnir segir jafnframt að gestinum hafi ekki orðið meint af og kom hann aftur inn í sal undir lokin til að fylgjast með endalokunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×