Konurnar eiga það sameiginlegt að búa alveg á eyjunni, eða vera þar yfir veturinn á meðan svartasta skammdegið gengur yfir á Íslandi.
Ingibjörg Bjarnadóttir stofnaði hópinn á sínum tíma.
„Mér finnst þetta bara alveg nauðsynlegt og þetta er barnið mitt og ég er svo ánægð með það, sem ég er búin að gera og vil bara að þetta verði áfram þótt ég sé að fara heim á Selfoss, en ég ætla að koma aftur í haust og þá verður þetta bara enn þá stærri hópur heldur en er núna,” segir Ingibjörg alsæl.

„Mér finnst þetta frábært framtak, alveg dásamlegt og virkilega gaman að koma og hittast líka og spjalla við fólkið,” segir Pálína Erna Ásgeirsdóttir.

„Það gengur ekki mikið hjá mér prjónaskapurinn, ég skal viðurkenna það, en ég er búin með hælinn þannig að þetta verður allavega einn sokkur,” segir Anna Grímsdóttir skellihlæjandi.

En eru engir karlar að prjóna með ykkur?
„Ekki enn þá en það hlýtur að koma að því, ég trúi ekki öðru. Þeir eru allavega alltaf að koma nær og nær okkur hérna,” segir Björk Ingþórsdóttir.

Eins og gengur og gerist eru konurnar mis fljótar að prjóna en það er þó ein í hópnum, sem er eins og raketta þegar kemur að prjónunum enda bunkar af fötum fyrir framan hana sem hún hefur prjónað síðustu vikur. Sjáið til dæmis þessa fallegu peysu á langömmubarn, sem á að koma í heiminn eftir nokkrar vikur.
„Ég veit ekki af hverju ég er svona fljót að prjóna, þetta hlýtur bara að vera eitthvað í genunum,“ segir Líney Björg Pétursdóttir, ofurprjónari.
