Vertu á verði - eftirlit með verðlagi er með virkari Facebook-hópum landans. Í verðbólguárferð standa meðlimir vaktina, fylgjast með vöruverði og skapast oft heitar umræður.
Meðlimum hópsins brá í brún þegar einn viðskiptavinur Nettós í Lágmúla birti mynd í hópnum um helgina. Verðmiðinn við 200 gramma pokana af Nóa kroppi sýndi stórum stöfum verðið 1059 krónur. Það hefði þýtt rúmlega fimm þúsund krónur fyrir kílóið.
Misskilningur reyndist á ferðinni því þótt pokarnir hafi verið 200 grömm í hillunni var verðmerkingin fyrir 360 gramma poka. Stærri gerðina, partýútgáfuna. Kílóverðið er því 2942 krónur fyrir kílóið. Sem mörgum þótti engu að síður alltof hátt.
Líkt og með Wham og Duran Duran skiptast nammigrísir Íslands í fylkingar. Annars vegar þeir sem velja frekar Nóa kropp og svo hinir sem kjósa Freyju Hrís. Sá samanburður rataði einmitt í umræðuna og leiddi í ljós að hjá Nettó kostar 200 gramma pokinn af Hrís 729 krónur sem svarar til 3645 króna fyrir kílóið.
Sambó Kúlu-Súkk annað vinsælt sælgæti, fyllt af lakkrís ólíkt Kroppinu og Hrísinu, er nokkuð ódýrara í sömu verslun. 529 krónur fyrir 300 grömm eða 1763 krónur fyrir kílóið.
Er mörgum nammineytandanum nóg boðið og segja óeðlilegt að sælgætið sem hér hefur verið nefnt sé hreinilega orðið dýrara en kjúklingur í einhverjum tilfellum með tilliti til kílóverðs. Þá má nefna að fyrrnefndar vörur eru um tíu prósentum ódýrari í verslunum Bónus og Krónunnar en enn dýrari hjá Hagkaup, Iceland og Krambúðinni.
Hefur verð hækkað óeðlilega mikið? Ertu með dæmi? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is.