Neytendur

Stjörnugrís innkallar skinku vegna listeríugerils

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Stjörnugrís hefur innkallað bæði brauðskinku og 80 prósenta niðursneidda skinku.
Stjörnugrís hefur innkallað bæði brauðskinku og 80 prósenta niðursneidda skinku.

Stjörnugrís hefur tilkynnt innköllun á tveimur tegundum af skinku vegna þess að gerillinn Listeria monocytogenes mældist í vörunum. Neytendur eru beðnir um að neyta ekki varanna og farga þeim eða skila í verslun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjörnugrís.

Þar segir að innköllunin eigi eingöngu við um tvær framleiðslulotur. Annars vegar 80% skinku frá Stjörnugrís með lotunúmerið 60022-4032 sem var dreift í allar helstu matvöruverslanir. Hins vegar brauðskinku frá Stjörnugrís með lotunúmerið 60612-4023 sem var dreift í Krónuna, Nettó og Bónus.

Neytendur sem eiga umræddar vöru eru beðnir um að neyta hennar ekki og farga henni eða skila í verslunum þar sem hún var keypt. 

Þá segir að Stjörnugrís sé í nánu samstarfi við birgja og heilbrigðisyfirvöld til að rannsaka málið frekar og grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir endurtekningu.

Gerillinn geti valdið hættulegum sjúkdómi

Á vef Matvælastofnunar segir að listeria monocytogenes geti orsakað sjúkdóminn listeriosis bæði hjá mönnum og dýrum. 

Einkenni sjúkdómsins séu mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. 

Í einstaka tilfellum geti bakterían valdið dauða, þá séyfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. Áhættuhópar séu barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×