Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Kanada látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Brian Mulroney gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1984 til 1993.
Brian Mulroney gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1984 til 1993. AP

Brian Mulroney, fyrrverandi forsætisráðherra Kanada, er látinn, 84 ára að aldri. Hann var um árabil formaður kanadíska Íhaldsflokksins og gegndi embætti forsætisráðherra á árunum 1984 til 1993.

Dóttir Mulroney, Caroline Mulroney, greindi frá andlátinu í gær og sagði föður sinn hafa andast í faðmi fjölskyldu sinnar.

Justin Trudeau, núverandi forætisráðherra Kanada, minnist sömuleiðis Mulroney og segist miður sín að hafa frétt af fráfalli hans. Segir Trudeau að Mulroney hafi unnið látlaust að því að vinna fyrir Kanadamenn og að því að gera Kanada að betri stað.

Mulroney var sonur írskra og kandarískra foreldra og var lögfræðingur að mennt. Hann þótti mikill ræðuskörungur og leiddi Íhaldsflokkinn til stærsta sigurs kanadísks stjórnmálaflokks í þingkosningunum 1984. Þegar naut gríðarlegra vinsælda framan af en þegar hann lét af embætti voru vinsældir hans ekki miklar.

Mulroney sótti meðal annars innblásturs til Ronald Reagan í Bandaríkjunum og Margaret Thatcher í Bretlandi í stjórnartíð sinni, meðal annars með breytingum á skattkerfi landsins sem mældist misjafnlega meðal kanadísku þjóðarinnar. 

Þá fór hann fyrir stjórn Kanada á þeim tíma þegar unnið var að gerð fríverslunarsamnings Kanada og Bandaríkjanna sem undirritaður var árið 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×